Blandað lið Selfoss missti af Norðurlandamóti vegna Covid-19

Blandað lið Selfoss missti af Norðurlandamóti vegna Covid-19

Í haust setti fimleikadeild Selfoss saman nýtt 1. flokks lið í blönduðum flokki. Iðkendur liðsins eru stúlkur og drengir á aldrinum 12-17 ára sem hafa æft hjá deildinni frá unga aldri.

Liðið æfir tólf klukkustundir á viku þar sem 4,5 klukkustundir fara í gólfæfingar og 7,5 klukkustundir í stökk á trampólíni og á fíbergólfi. Æfingarnar eru fjórum sinnum í viku þar sem mikil áhersla er lögð á styrk, tækni, liðleika sem og andlega hlutann. Þessir efnilegu iðkendur voru öll að stíga sín fyrstu skref í að keppa í 1. flokki þar sem kröfur eru orðnar meiri en í yngri flokkum greinarinnar og stóðu þau sig vel.

Á bakvið liðið stendur stórt þjálfarateymi sem eru þau Aníta Þorgerður Tryggvadóttir, Guðmundur Kári Þorgrímsson, Mads Pind, Nadía Björt Hafsteinsdóttir og Unnur Þórisdóttir. Ásamt því fengu þau faglega aðstoð frá Tönju Birgisdóttur yfirþjálfara deildarinnar og Sigrúnu Ýr Magnúsdóttur deildarstjóra í dansi. Allir þessir þjálfarar eiga það sameiginlegt að hafa keppt eða þjálfað á stórmótum í hópfimleikum.

Undirbúningurinn í vetur var mikill þar sem þurfti að huga að mörgu og ekki síst félagslega þættinum þar sem verið var að setja saman nýtt lið úr ólíkum hópum. Þjálfarar voru duglegir að brjóta upp tímabilið með hópefli og má þar nefna sem dæmi; þemaæfingar, æfingabúðir í Keflavík og jólabaksturskeppni. Einnig tók hópurinn þátt í árlegri jólasýningu deildarinnar þar sem öllu var til tjaldað

.

Elstu iðkendur deildarinnar fengu í vetur að sitja fyrirlestur hjá Maríu Rún Þorsteinsdóttur um næringarfræði, fyrirlestur um afrekshugarfar hjá Hreiðari Haraldssyni íþróttasálfræðing og fyrirlestur hjá Bjarna Fritz „Vertu óstöðvandi“. Að auki gekk Guðmundur Kári landsliðsmaður í fimleikum til liðs við þjálfarateymið en hann var með fyrirlestur og sá um andlegan undirbúning fyrir liðið þar sem hann tók meðal annars fyrir þætti eins og meðvitund, sjálfsálit, sjálfstal, markmið, liðsheild og fleira.

Eftir áramót styttist óðum í fyrsta mót liðsins og var þá fókusinn settur á mótaundirbúning en deildin stóð fyrir keyrslumóti þar sem liðið sýndi þær æfingar sem átti að keppa með og fengu punkta og athugasemdir frá dómurum deildarinnar. Iðkendur liðsins lögðu mikinn metnað í æfingar í vetur og uppskáru vel á þeim tveimur mótum sem þau náðu að keppa á. GK-mótið fór fram á Selfossi en það var fyrra mótið sem taldi til úrtöku fyrir Norðurlandamót unglinga sem fram átti að fara í Danmörku þann 18. apríl síðastliðinn. Þar náði lið Selfoss að tryggja sér GK-meistaratitil í harðri keppni við blandað lið Stjörnunnar. Seinna úrtökumótið var Bikarmót sem fór fram hjá Stjörnunni í Ásgarði þar sem lið Selfoss endaði í öðru sæti á eftir blönduðu liði Stjörnunnar og tryggði sér þar með þátttökurétt á Norðurlandamótið.

Stuttu eftir Bikarmótið skall á Covid-faraldurinn og kom í ljós að Norðurlandamót unglinga sem fram átti að fara í Danmörku yrði ekki að veruleika. Það var ákveðið áfall eftir allan undirbúninginn. Síðan þá hafa iðkendur fengið sendar heimaæfingar frá þjálfurum sínum og staðið sig vel í að sinna þeim. Það eru mikil gleðitíðindi að fimleikaæfingar hófust aftur 4. maí og er mikil eftirvænting hjá iðkendum sem og þjálfurum að komast aftur inn í fimleikasal til að takast á við ný verkefni.

aþt

Á mynd með fréttinni er blandað lið Selfoss ásamt þjálfurum að loknu GK-mótinu.
Myndir inn í frétt:
Jólasýning
Þemaæfing
Keppni á GK-mótinu
Eftir bikarmót í Garðabæ.
Ljósmyndir: Umf. Selfoss