Brons í flokki blandaðra liða

Brons í flokki blandaðra liða

Íslenska liðið í blönduðum flokki átti ærið verkefni fyrir höndum í dag eftir að hafa lent í 5. sæti í undankeppninni. Markmiðið var sett á verðlaun og til að það gengi upp þurfti liðið að bæta sig á öllum áhöldum.

Dagurinn byrjaði því ekki vel því Kolbrún Júlía Guðfinnsdóttir Newman veiktist í nótt og urðu þjálfarar því að kippa inn varamanni.   Engin draumastaða því Kolbrún er lykilmaður í liðinu á stökkáhöldunum og átti að stökkva í öllum umferðum. Bára Stefánsdóttir fékk þetta erfiða hlutverk og leysti frábærlega.

Íslenska liðið byrjaði á gólfi og bætti einkunnina frá því í gær um 0.500. Næst tóku við æfingar á dýnu sem gengu frábærlega og hækkuðu þau sig um 1.850 stig og ljóst að bronsið var innan seilingar. Á trampólíni hélt liðið áfram að bæta sig og lokaeinkunnin 56.066 leit vel út en Bretland átti enn möguleika.  Til að ná bronsinu af íslenska liðinu þurfti Bretland að bæta sig um 0.901 og það var ekkert ógerlegt.  Til þess þurftu þeir þó að eiga mjög góðan dag á gólfinu, sem þeir áttu ekki og bronsið því okkar.

Gríðarleg ánægja braust út í íslenska hópnum, enda öll markmið íslensku liðanna hingað til nást og aðeins eitt lið, kvennaliðið sem ekki hefur lokið keppni.

 

Frétt frá Fimleikasambandinu

Tags:
, ,