EUROGYM í Svíþjóð

EUROGYM í Svíþjóð

Í dag lýkur EUROGYM fimleikahátíðinni sem staðir hefur yfir í Helsingborg í Svíþjóð. Hátíðin er fyrir ungmenni á aldrinum 12 – 18 ára og stendur yfir frá 13. – 18. júlí. Í ár eru 4.600 þátttakendur samankomnir frá 22 löndum víðs vegar frá Evrópu.

Íslenski hópurinn telur 400 manns, frá 9 félögum, sem gerir hann að fjórða stærsta hópnum á hátíðinni. Hópurinn tók þátt í setningarathöfn á sunnudag og var athöfnin umtöluð eftir á fyrir að vera ein sú glæsilegasta og skemmtilegasta sem sést hefur í sögu hátíðarinnar.

Á mánudag hófust svo vinnubúðirnar en þær fara fram fyrir hádegi og svo eru félögin með götusýningar eftir hádegi. Svíarnir leggja mikinn metnað í vinnubúðirnar og er úrvalið mikið fyrir þátttakendur í ár, má þar nefna vinnubúðir eins og parkour, trampólín, hjólabretti, kano, fimleikar, strandblak, crossfit og svo mætti lengi telja. Gaman er frá því að segja að mitt í sirkus æði Íslendinga þá er einn vinsælasti sirkus heims, Cirque du soleil, mættur til Svíþjóðar með vinnubúðir en margur fimleikamaðurinn hefur látið sig dreyma um að sjá sýningar þeirra og má því segja að þátttaka í vinnubúðum á þeirra vegum sé draumi líkust.

Á fimmtudaginn fer fram Gala sýning hátíðarinnar en framlag Íslands er að þessu sinni í höndum Fjölnis. Hópurinn hefur getið sér gott orð fyrir frábært atriði en hann hefur nú þegar komið einu sinni fram á hátíðinni þegar hann tók þátt í nýjung sem ber nafnið European Gym for Youth Challenge, sem er sýningarkeppni á vegum evrópska fimleikasambandsins. Ísland átti þrjú lið í keppninni, því auk Fjölnis tóku tvö lið frá Ármanni einnig þátt og stóðu þau sig öll með stakri prýði. Alls tóku 26 lið eða 600 einstaklingar þátt í keppninni sem þótti takast með miklum glæsibrag og er það mál manna að viðburðurinn sé kominn til að vera. Sæunn Viggósdóttir, einn af fararstjórum íslenska hópsins var dómari í keppninni og er það mikið ánægjuefni fyrir okkur Íslendinga að einn af okkar dómurum fái sæti við dómaraborðið á svo stórum viðburði sem og þessum.

Mikil gleði, jákvæðni og eftirvænting einkenna íslenska hópinn sem saman upplifir þetta ævintýri sem EUROGYM fimleikahátíðin er.

Frétt af heimasíðu Fimleikasambands Íslands.