Evrópumótið í hópfimleikum skartar níu Selfyssingum

Evrópumótið í hópfimleikum skartar níu Selfyssingum

Evrópumótið í hópfimleikum verður haldið á Íslandi 15.-18. október. Níu þátttakendur uppaldir hjá Fimleikadeild Selfoss munu keppa með landsliðum Íslands í mismunandi flokkum.

Með blönduðu liði unglinga keppa Alma Rún Baldursdóttir, Eysteinn Máni Oddsson, Konráð Oddgeir Jóhannsson, Nadía Björt Hafsteinsdóttir og Rikharð Atli Oddsson. Í blönduðu liði fullorðinna keppa Aron Bragason og Hugrún Hlín Gunnarsdóttir. Í kvennaliði fullorðinna keppa Eva Grímsdóttir og Rakel Nathalie Kristinsdóttir. Auk þess er Selfyssingurinn Tanja Birgisdóttir einn af þjálfurum landsliðsins.

Á heimasíðu Umf. Selfoss verður hitað upp fyrir mótið þar sem ítarleg viðtöl við landsliðsfólk Selfyssinga birtist á hverjum degi fram að móti.

Þetta duglega íþróttafólk hefur æft af kappi frá í vor, lagt allt undir og hefur álagið aukist jafnt og þétt eftir því sem nær dregur mótinu.

Mótið er einstakur viðburður í íþróttasögu Íslendinga en það verður sett með glæsilegri opnunarhátíð miðvikudaginn 15. október klukkan 17:00 í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Vert er að nefna að Selfoss á nokkra þátttakendur í opnunaratriði mótsins.

Blandað lið unglinga mun hefja keppni í undanúrslitum strax að lokinni setningu.

Við hvetjum ykkur að sjálfsögðu að næla ykkur í miða á Midi.is og veita afreksíþróttamönnum okkar stuðning beint í æð.

ÁFRAM ÍSLAND!

Tags:
, ,