Fimleikadeild Selfoss gerir samning við Lyfju

Fimleikadeild Selfoss gerir samning við Lyfju

Á dögunum skrifuðu Vilborg Halldórsdóttir, lyfsali Lyfju á Selfossi, og Bergþóra Kristín Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri fimleikadeildar Selfoss, undir samstarfssamning. Samningurinn er til tveggja ára og er markmið hans að efla fimleikadeildina sem hefur verið í mikilli uppbyggingu síðustu ár.

„Það er afar þýðingarmikið fyrir félag eins og okkar að fá inn góða samstarfsaðila því þannig náum við að byggja upp öfluga deild og halda áfram að gera gott starf betra“ segir Bergþóra, framkvæmdastjóri fimleikadeildarinnar.

„Við sem störfum hjá Lyfju leggjum metnað okkar í að styðja við nærsamfélagið. Það er því afar ánægjulegt fyrir okkur að geta styrkt íþrótta- og æskulýðsstarf á Selfossi með þessum hætti” segir Vilborg Halldórsdóttir, lyfsali.