Fimleikar á tímum Covid-19

Fimleikar á tímum Covid-19

Fimleikadeild Selfoss þurfti að endurskipuleggja æfingaplan deildarinnar þann 18. nóvember sl. svo hægt væri að halda úti æfingum fyrir börn á aldrinum 4-15 ára. Nokkuð vel tókst til að lágmarka skerðingu æfingatíma. Því miður hafa eldri iðkendur ekki fengið að æfa og aflýsa þurfti íþróttaskóla deildarinnar eftir fjögur skipti.

Búið er að skipta íþróttahúsinu Baulu upp í tvö sóttvarnarhólf með tvo innganga og tvo útganga. Að hámarki mega 25 börn vera í hvoru hólfi frá 5.-10. bekk en 50 börn í 4. bekk og yngri. Engin blöndum má vera á milli hólfa hvorki hjá iðkendum né þjálfurum og verða þjálfarar að bera grímur ef þeir þurfa að fara inn fyrir tveggja metra markið. Fimleikaþjálfun snýst að stórum hluta um móttökur og því bera þjálfarar deildarinnar grímur megnið af tímanum. Samstaða er í hópnum og bera allir þjálfarar vínrauðar Selfoss grímur sem fimleikadeildin er að selja. Sérstakur sóttvarnarfulltrúi er starfandi hjá deildinni sem fylgist náið með hvort farið sé eftir settum reglum.

Fimleikadeildin vill koma á framfæri þakklæti til foreldra og iðkenda fyrir samvinnuna en foreldrar og aðrir utanaðkomandi hafa ekki haft leyfi til að koma inn í íþróttahúsið. Reglurnar sem unnið er eftir núna verða endurskoðaðar í dag, 9. Desember, og vonast allir til að einhverjar tilslakanir verði á takmörkunum í íþróttastarfi.

sóh

Þjálfarar hjá fimleikadeild Selfoss bera vínrauðar Selfoss-grímur. F.v. eru Guðmundur Kári Þorgrímsson, Tanja Birgisdóttir, Aníta Þorgerður Tryggvadóttir, Michal Rísský og Mads Pind Jensen.
Ljósmynd: Umf. Selfoss