Fimleikaþjálfarar sækja grimmt í fræðslu FSÍ

Fimleikaþjálfarar sækja grimmt í fræðslu FSÍ

Alls fóru sautján fimleikaþjálfarar frá fimleikadeild Selfoss á þjálfaranámskeið 1A sem haldið var í byrjun september á vegum Fimleikasambands Íslands. Á námskeiðinu var farið í hlutverk þjálfara, virkni í íþróttasal, upphitanir og tækni í grunnæfingum fimleika. Um helgina sækja tveir þjálfarar móttökunámskeið 1 á dýnu og trampólíni en þá er farið yfir hvernig eigi að taka á móti iðkendum í ýmsum æfingum. Seinna í október verður svo móttökunámskeið 2 en fimleikadeild Selfoss á fimm þátttakendur á því námskeiði. Fimleikadeildin leggur mikið upp úr góðri menntun þjálfara og hvetur þá til þátttöku í endurmenntun.
Eins tóku sautján þjálfarar frá fimleikadeildinni þátt í þjálfararáðstefnunni sem Sveitarfélagið Árborg og Ungmennafélagið Selfoss stóðu fyrir á dögunum. Meðal þjálfara deildarinnar var almenn ánægja með framtakið og verður spennandi að sjá hvað verður í boði að ári.