Flottur árangur á Íslandsmótinu á Akureyri

Flottur árangur á Íslandsmótinu á Akureyri

Seinni hluti Subway Íslandsmótsins í hópfimleikum fór fram um helgina á Akureyri, skráðir voru yfir 550 keppendur frá 14 félögum víðsvegar af landinu. Fimleikadeild Selfoss sendi 82 keppendur í sjö liðum til keppni og stóðu sig allir með prýði.

Farið var á stað frá Tíbrá með rútu í hádeginu á föstudag og haldið beint til Akureyrar, flestir keppendur voru í gistingu og mat í Lundarskóla, en aðrir hjá vinum og vandamönnum á Akureyri.

Í 3. flokki C sigraði Selfoss 2 þar sem þær unnu dansinn með yfirburðum og skoruðu vel á trampolíni og dýnu.  Selfoss 1 var í A deild og endaði í 4. sæti, rétt á eftir Fjölni sem var í 3. sæti.

Í 4. flokki D var Selfoss 3 í 4. sæti, þeirra besta áhald var dans. Selfoss 1 sigraði B deildina en þeirra besta áhald var einnig dans, ásamt því að skora vel á trampólíni og dýnu. Selfoss 2 keppti í A deild og þrátt fyrir að vera allar á yngra ári í flokknum lentu þær í 4. Sæti, þeirra besta áhald var dans.

Í 3. flokki Mix sigraði Selfoss 1, þau áttu jafna og góða frammistöðu á öllum áhöldum.  Eftir að hafa átt frábært tímabil urðu þessir efnilegu krakkar deildarmeistarar í sínum flokk.

Í 4. flokki Mix endaði Selfoss 1 í 2. sæti á eftir Hetti, þeirra besta áhald var dýna.

Ferðin til Akureyri var góð og allir héldu glaðir heim á leið eftir mótslok á sunnudeginum. Mótið er síðasta mótið á tímabilinu 2016 til 2017 hjá Fimleikasambandinu og hafa um 4000 keppendur frá 17 samböndum tekið þátt á mótum ársins.

Seinasta mót ársins hjá fimleikadeild Selfoss er hið árlega minningarmót um Magnús Arnar Garðarsson og fer það fram í Iðu fimmtudaginn 25. maí.