Frábær árangur á vormóti FSÍ á Egilsstöðum

Frábær árangur á vormóti FSÍ á Egilsstöðum

Krakkarnir úr Fimleikadeild Selfoss gerðu góða ferð á Egilsstaði um nýliðna helgi en þar fór fram vormót Fimleikasambands Íslands. Alls voru 53 lið mætt til keppni með rúmlega 600 keppendur.

Selfoss mætti til leiks með átta lið og stóðu þau sig öll frábærlega vel. Tveir deildarmeistaratitlar náðust í hús en þau lið sem eru stigahæst eftir öll mót vetrarins eru krýnd deildarmeistarar. Titlarnir féllu í hlut Selfoss drengja yngri og Selfossstúlkna í 4. flokki.

Í 4. flokki A kepptu Selfoss 9 sem sigraði og Selfoss 10 sem varð í fimmta sæti. Selfoss 9 er á eldra ári í flokknum en Selfoss 10 er á yngra ári.  Í 4. flokki B varð sameiginlegt lið Selfoss 11 og 12 í áttunda sæti en þær eru líka á yngra ári í flokknum.

Í 3. flokki A kepptu Selfoss 5 og nældu sér í silfrið sem er frábært þar sem þær eru einnig á yngra ári í flokknum og Selfoss 8 keppti í 3. flokki B og enduðu í áttunda sæti en þær eru líka á yngra ári í flokknum.

Í flokki drengja yngri áttum við eitt lið en strákarnir sigruðu með yfirburðum.

Í 2. flokki blandaðra liða tefldu Selfyssingar fram einu liði en krakkarnir voru að keppa í fyrsta skipti sem blandað lið og enduðu í þriðja sæti eftir mjög fínt mót.

Í 2. flokki kvenna kepptu stelpurnar í Selfoss 4 og náðu í silfurverðlaun sem er þeirra besti árangur í flokknum í vetur en þær eru á yngra ári í 2. flokki.

Ferðin gekk mjög vel í alla staði og áttu krakkarnir frábæra daga á Egilsstöðum í góðu veðri. Fimleikadeildin vill koma á framfæri þökkum til foreldra, fararstjóra, þjálfara, dómara og síðast en ekki síst iðkendum fyrir frábæra ferð. Eins ber að þakka frábæra þjónustu að Smyrlabjörgum og á Hótel Höfðabrekku og Guðmundi Tyrfingssyni fyrir góðan akstur og liðlegheit.

ob

Hóparnir sem kepptu á Egilsstöðum.

Selfoss10_4flokkurA Selfoss9_4flokkurA Selfoss8_3flokkurB Selfoss5_3flokkurA Selfoss4_2flokkur Selfossmix_2flokkur Selfossdrengir yngri Selfoss11_124flokkurB_