Gull og silfur á Selfoss á RIG

Gull og silfur á Selfoss á RIG

Fimleikadeild Selfoss sendi tvö lið til þátttöku á Reykjavíkurleikana í hópfimleikum sem fram fór í Laugardalshöllinni sunnudaginn 26. janúar.

Blandað lið Selfoss keppti í 1.flokki sem er flokkur 13-17 ára. Þau áttu í harðri baráttu við blandað lið Gerplu en lið Selfoss hafði betur á öllum áhöldum og uppskar gull með samanlagt 43.37 stig en lið Gerplu kom á eftir með 42.08 stig og lið Hattar rak lestina með 29.27 stig. Liðið frumsýndi nýjar gólfæfingar og tókst það nokkuð vel. Fyrir næsta mót sem er Íslandsmót unglinga 15.febrúar á Selfossi verður bætt í erfiðleika í stökkum og dansinn orðinn öruggari. Þetta lið stefnir ótrautt á að ná lágmörkum inná Norðurlandamót unglinga sem haldið verður á Íslandi í apríl. Það verður gaman að fylgjast með þeim á keppnistímabilinu sem hófst með þessu móti.

Í meistaraflokki kvenna sendum við eitt lið til þátttöku og sýndu stelpurnar mikinn karakter og stóðu sig mjög vel. Liðið er mikið endurnýjað frá síðasta vetri og mættu grimmar til leiks. Þær keyrðu mjög flottar æfingar á öllum áhöldum og uppskáru silfur með samtals 44.67 stig á eftir liði Gerplu sem hampaði sigri á mótinu með samtals 53.50 stig. Í þriðja sæti varð lið Hattar með 30.57 stig en lið Stjörnunnar tók ekki þátt að þessu sinni. Stelpurnar eiga næsta mót á Selfossi 15.mars og verður gaman að fylgjast með þeim út tímabilið.