Héraðsmótið í hópfimleikum 2012 – Allir titlar á Selfoss

Héraðsmótið í hópfimleikum 2012 – Allir titlar á Selfoss

Héraðsmótið í hópfimleikum var haldið í íþróttahúsi Vallaskóla laugardaginn 24. mars. Alls voru 24 lið mætt til leiks frá fimm félögum. Keppt var í 1. flokki kvenna og mix í teamgym en í 5.-3. flokki í landsreglum. Eins var keppt eftir 5. flokksreglum með undantekningum fyrir þau lið sem eru að stíga sín fyrstu spor í keppni. 
Mótið fór vel fram en í 5. flokki b fengu öll liðin viðurkenningu fyrir þátttökuna. Þó voru HSK-meistarar í þessum flokki krýndir og voru það stelpurnar í HB1 sem keppa fyrir Selfoss sem voru með flest samanlögð stig 17,7 en Hrunamenn eldri komu fast á hæla þeirra með 17,5 stig. Í þriðja sæti varð lið Þórs T4. Í 5. flokki sem er flokkur 9-12 ára varð lið Selfoss HL5 hlutskarpast með 22,4 stig, í 2.sæti með 21,25 stig var lið Selfoss HL6 og í þriðja sæti varð lið Selfoss HL8 með 19,85 stig. Lið Hamars kom svo í 4.sæti með 16,4 stig.  
Í 4.flokki, sem er flokkur 12-14 ára, voru einungis tvö Selfosslið mætt til keppni en lið Selfoss HL4 sigraði með 22,65 stig. Selfoss HL2 kom fast á eftir með  21,15 stig.
Selfoss karlaflokkur keppti einnig og stóðu sig mjög vel þeir fengu 16,1 stig samanlagt fyrir sínar æfingar.  
Í 3.flokki voru þrjú lið mætt til keppni, eitt frá Hamri, eitt frá Þór og eitt frá Selfossi. Úrslit urðu þannig að Selfoss HL1 sigraði með 22,75 stig, lið Þórs T1 varð í 2.sæti með 20,45 stig en lið Hamars rak lestina með 17,35 stig.  
Í 1. flokki mix keppti Selfoss mix og í 1. flokki kvenna keppti Selfoss HM2 en bæði þessi lið notuðu mótið sem undirbúning fyrir Íslandsmótið í hópfimleikum. Mixliðið fékk samtals 39,75 stig en kvennaliðið fékk samtals 42,65 stig.  Öll liðin á mótinu fengu páskaegg með málshætti fyrir þátttökuna.
Fyrri hluti Íslandmótsins fer fram á föstudaginn í íþróttahúsi Gerplu að Versölum í Kópavogi.  Keppnin hefst klukkan 18:00.  
 
HSK meistarar 2012
5. flokkur b  Selfoss HB1
5. flokkur Selfoss HL5
4. flokkur Selfoss HL4
3. flokkur Selfoss HL1
1. flokkur mix  Selfoss HM4
1. flokkur kvk  Selfoss HM2