Húsfyllir á öllum sýningum

Húsfyllir á öllum sýningum

Líf og fjör var í íþróttahúsi Vallaskóla síðastliðinn laugardag þegar Fimleikadeild Selfoss stóð fyrir árlegri jólasýningu. Sýningarnar voru alls þrjár og var húsfyllir á þeim öllum.

Í ár tóku allir iðkendur deildarinnar þátt sem persónur Disney-myndinni Frozen. Sjá mátti litlar gulrætur, hreindýr, blóm, úlfa, Elsur, Önnur, Hans, Kristján og Ólaf svo eitthvað sé nefnt. Atriðin voru hvert öðru flottari og var greinilegt að mikið var búið að leggja í undirbúning hvort sem litið var á atriðin sjálf, leikmynd, tónlist, ljós, búninga, förðun eða hárgreiðslur.

Það er mikil reynsla sem börnin öðlast við þátttöku á sýningu sem þessari og er það gott veganesti út í lífið. Sumir taka að sér stærri hlutverk en aðrir og leika aðalpersónur í sýningunni og í ár var yngsta aðalpersónan aðeins níu ára. Krökkunum fórst þetta einkar vel úr hendi og fékk fólk gæsahúð og tár í hvarma við sum leik- og dansatriðin.

Það er stórkostlegt að sjá hvernig allir hjálpast að á laugardagsmorgni við að koma öllum í réttan karakter og eru þar foreldrar fremstir í flokki. Iðkendur, þjálfarar og stjórn voru hæstánægð með útkomuna og á undirtektum áhorfenda að dæma þá voru þeir ekki síður ánægðir.

Fimleikadeild Selfoss vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem lögðu sýningunni lið þjálfurum, stjórn, foreldrum, fyrirtækjum og öðrum velunnurum og síðast en ekki síst fá börnin þakkir fyrir frábæra frammistöðu.

Það var Inga Heiða Heimsdóttir sem tók meðfylgjandi myndir á jólasýningunni. Allar myndir af jólasýningunni Frozen má finna á fésbókarsíðunni Selfoss fimleikamyndir. Hægt er að kaupa stakar myndir og rennur ágóði í fræðslusjóð Fimleikadeildar Selfoss.

ob

Jólasýning 2014 - vefur (10)

Jólasýning 2014 - vefur (2)

Jólasýning 2014 - vefur (8)
Jólasýning 2014 - vefur (7) Jólasýning 2014 - vefur (6) Jólasýning 2014 - vefur (5)

Tags: