Lið Selfoss stóðu sig vel á vormóti FSÍ á Egilsstöðum

Lið Selfoss stóðu sig vel á vormóti FSÍ á Egilsstöðum

Vormót FSÍ í hópfimleikum fór fram á Egilsstöðum helgina 12.-13. maí sl. Alls tóku 51 lið frá 13 félögum þátt í mótinu en það tókst vel í alla staði. Selfoss sendi sjö lið til keppni og áttu þau öll mjög gott mót.

Í 5. flokki varð lið Selfoss HL5 í 2. sæti með 22,27 stig, lið Selfoss HL6 varð í 4. sæti með 20,97 stig og yngsta liðið HL8 varð í 6. sæti með 20,13 stig. Mjög jafnt var á með liðinum en alls tóku 14 lið þátt í þessum flokki. Það sýnir að liðin frá Selfossi stóðu sig mjög vel óháð aldri. Lið HL5 átti möguleika á deildarmeistaratitli í þessum flokki og þurfti að vinna mótið til að næla í þann bikar. Liðið varð að láta í minni pokann fyrir liði frá Akureyri sem tók 1. sætið og deildarmeistaratitilinn.

Í 4. flokki var Selfoss með tvöfaldan sigur í kvennaflokki af 17 liðum. Lið HL4 sigraði flokkinn með 21,83 stigum og lið HL2 kom fast á hæla þeirra með 21,67 stig, en það var þeirra langbesti árangur í vetur. Selfoss HL4 áttu fyrir mótið ekki mikla möguleika á deildarmeistaratitli þar sem þær voru fyrir mótið með 10 stig en lið Gerplu með 14 stig. Úrslit urðu þó þannig að Selfoss vann mótið og fékk 7 stig og var því með 17 stig. Lið Gerplu lenti óvænt í 4. sæti og fengu 3 stig. Liðin voru því jöfn að stigum en Gerpla hlaut deildarmeistaratitilinn þar sem þær voru með tvo sigra á tímabilinu en Selfoss einn. Mjög efnilegir hópar hér á ferðinni.

Í 4. flokki drengja kepptu Selfoss HL. Þeir voru fámennir en sýndu þó flottar æfingar og enduðu í 3. sæti. Strákarnir hafa sýnt miklar framfarir í vetur og verður gaman að fylgjast með þeim á nýju tímabili í haust þar sem þeir koma án efa sterkir til leiks.

Í 3. flokki kepptu stelpurnar í HL1. Þær urðu eins og Selfoss HL5 að sigra flokkinn til að vinna deildarmeistaratitilinn. Þær keyrðu flotta dýnu og gólf en misstigu sig aðeins á trampólíninu og enduðu í 2. sæti af sjö liðum á mótinu og misstu af deildarmeistaratitlinum. Þessar stelpur hafa verið mjög vaxandi í vetur.

Ferðin gekk í alla staði mjög vel. Sumir lentu þó í meiri ævintýrum en aðrir og urðu veðurtepptir á Egilsstöðum þar sem ekki var flogið. Það voru yngstu iðkendurnir sem urðu eftir. Vel var þó hugsað um þau og öll komu þau kát og hress heim á mánudegi. Mikill fjöldi foreldra fóru með í ferðina og skapaðist góð stemning á pöllunum.

Fimleikadeildin vill þakka þjálfurum og foreldrum fyrir góða ferð og óskar iðkendunum til hamingju með mjög flott mót.

-ob/ög