Minningarmót 2018

Minningarmót 2018

Laugardaginn 28. apríl síðastliðinn fór fram árlegt Minningarmót hjá fimleikadeild Umf. Selfoss. Minningarmótið er haldið í minningu um Magnús Arnar Garðarsson, þjálfara hjá deildinni sem lést í mótorhjólaslysi aðeins tvítugur að aldri, árið 1990.

Minningarmótið hefur skapað sér fastan sess hjá fimleikadeildinni og er orðið að uppskeruhátíðinni okkar, þar sem þeir iðkendur eða lið sem skarað hafa framúr fá ýmis konar viðurkenningar. Mótinu var tvískipt í ár, en í fyrri hluta mótsins kepptu yngstu keppnishóparnir okkar, 7-11 ára iðkendur. Öll lið fengu verðlaun fyrir sitt besta áhald og keppendur fengu einnig epli í boði Nettó. Mikil gleði var meðal keppenda og mótið gekk mjög vel. Eftir fyrri hlutann voru veitt verðlaun fyrir lið ársins, en 4. flokkur 3 fékk þann bikar í ár.

Í seinni hluta mótsins kepptu eldri keppendur, 11-15 ára. Það sama var uppi á teningnum í þeim hluta, þar sem öll lið fengu verðlaun fyrir sitt besta áhald og keppendur fengu epli frá Nettó. Liðin sem kepptu í seinni hlutanum eru öll að fara að keppa á Íslandsmóti unglinga í maí og því var Minningarmótið góður undirbúningur fyrir það. Í lok mótsins voru veittar ýmsar viðurkenningar.

Viðurkenningu fyrir framför og ástundun á þessu keppnisári fengu Auður Helga Halldórsdóttir og Rúnar Ingi Jóhannsson. Efnilegustu unglingarnir að þessu sinni voru Evelyn Þóra Jósefsdóttir og Bjarni Már Stefánsson. Klara Sigurðardóttir fékk félagabikarinn í ár. Fimleikakona ársins var valin Birta Sif Sævarsdóttir og fimleikamaður ársins var Bjarni Már Stefánsson. Virkilega flott fimleikafólk sem við eigum og það er ljóst að framtíðin er björt! Að auki fékk Inga Heiða – fimleikaljósmyndari þakklætisvott fyrir óeigingjarnt og frábært starf á síðustu árum.

bki

Röð á verðlaunamynd: Birta Sif, Rúnar Ingi, Bjarni Már, Evelyn Þóra, Auður Helga og Klara.