Selfoss á palli í öllum flokkum

Selfoss á palli í öllum flokkum

Haustmót Fimleikasambands Íslands var haldið laugardaginn 16. nóvember í íþróttahúsinu Versölum í Kópavogi. Alls voru rúmlega 500 keppendur frá níu félögum af öllu landinu mætt til keppni. Keppt var í þremur aldursflokkum og átti fimleikadeild Selfoss átta lið á mótinu. Keppendur stóðu sig mjög vel.  Stúkan var þétt setin, dugleg að hvetja og fagna stórum sem smáum sigrum á gólfinu.

Í 4. flokki 10-11 ára kepptu þrjú lið frá Selfossi. Keppnin var mjög hörð en Selfoss A endaði í 3. sæti með 35,533 stig en sigurliðið kom frá Akranesi með 36,117 stig. Lið Selfoss C varð í 6. sæti og lið Selfoss B í  7. sæti en alls tóku 10 lið þátt í flokknum. Það verður mjög spennandi að fylgjast með í þessum flokki í vetur enda upprennandi fimleikastjörnur hér á ferðinni.

Í 3. flokki 12-13 ára kepptu tvö lið frá Selfossi en alls kepptu ellefu lið í þessum flokki. Lið Selfoss A skipað stúlkum fæddum 2001 gerði sér lítið fyrir og sigraði keppnina með 36,933 stig en þær bræddu dómarana með glæsilegum gólfæfingum. Þær áttu flott trampólín og góða spretti á dýnunni en eiga nokkur stig til góða þar. Lið Selfoss B skipað stúlkum fæddum 2001 og 2002 endaði í 5. sæti sem er mjög flottur árangur. Þær áttu jafna keppni bæði á dýnu og trampi en skoruðu hæst á gólfinu af sínum áhöldum. Þær enduðu með 33,000 stig. Í heildina mjög flottur árangur í þessum flokki og spennandi vetur framundan. Lið Gerplu varð í 2. sæti með 36,367 stig og lið Stjörnunnar í því þriðja með 35,933 stig.

Í 2. flokki 14-15 ára átti Selfoss eitt lið í kvennakeppninni og eitt lið í flokki blandaðra liða. Blandaða liðið var eina liðið í þessum flokki en stóð sig mjög vel svo eftir var tekið. Heildarstigafjöldi þeirra var 26,450 stig en dansinn var ekki fullkláraður og skýrir það samtöluna. Þau eiga án efa eftir að sýna miklar framfarir í vetur. 

Í kvennaflokknum var mjög hörð keppni. Selfossstúlkur mættu til leiks með mesta erfiðleikann og skoruðu hæst bæði á dýnu og í gólfæfingum. Þær áttu í smá erfiðleikum á trampólíninu og enduðu í 4. sæti þar en eiga mikið inni til að sýna. Þær enduðu í 2. sæti í heildina með samtals 43,567 stig og mæta tvíefldar til leiks á Íslandsmótið í febrúar. Mjög efnilegur hópur hér á ferð. Lið Stjörnunnar sigraði með 45,233 stig og lið Gerplu varð í 3. sæti með 41,917 stig.

Drengirnir okkar kepptu í flokki stráka yngri en þeir voru eina liðið í þeim flokki. Þeir sýndu fínar æfingar á dýnu og trampólíni og ætla að bæta við gólfæfingum á næsta móti. Þessir strákar eru á aldrinum 9-10 ára og eiga framtíðina fyrir sér enda rétt að stíga sín fyrstu spor í keppni.

Um næstu helgi fer fram stökkfimimót en það er einstaklingskeppni í dýnu- og trampólínstökkum. Selfyssingar eiga nokkra keppendur á því móti en það verður haldið í íþróttahúsi Fjölnis.

ob

Haustmót FSÍ 2013 (4)

Haustmót FSÍ 2013 (3) Haustmót FSÍ 2013 (2) Haustmót FSÍ 2013 (1) Haustmót FSÍ 2013 (8) Haustmót FSÍ 2013 (7) Haustmót FSÍ 2013 (6) Haustmót FSÍ 2013 (5)

Tags:
,