Selfyssingar kláruðu NM með stæl

Selfyssingar kláruðu NM með stæl

Blandað lið Selfoss hafnaði í sjötta sæti af átta liðum á Norðurlandamótinu í hópfimleikum sem fram fór á Íslandi um helgina. Keppnin var mjög jöfn hjá efstu sex liðunum og mátti ekkert út af bregða til að missa af lestinni. Lið Selfyssinga lenti í vandræðum á miðvikudag þegar einn liðsmanna meiddi sig á keyrslumótinu og var tvísýnt um þátttöku hans allt fram á keppnisdag en hann gat tekið þátt en ekki að beita sér að fullu.

Liðið hóf keppni á dýnu og framkvæmdi fyrstu og síðustu umferðina áfallalaust en í annarri umferð voru stór mistök sem kostuðu einn heilan af lokaeinkunn. Trampólínið byrjaði mjög vel og voru fyrstu tvær umferðirnar mjög vel framkvæmdar en liðið náði ekki að klára seinustu umferðina sem skyldi. Síðasta áhaldið voru gólfæfingar og kláruðu þau mótið með stæl svo eftir var tekið en dansinn þeirra var mjög vel framkvæmdur og þau geisluðu á gólfinu. Hlutu fyrir sína hæstu einkunn í dansi frá upphafi með 21,116.

Liðið skoraði samtals 53,466 stig sem er hæsta samanlagða skor sem liðið hefur náð en það dugði ekki hærra í þetta skiptið. Munurinn milli fyrsta og sjötta sætis var mjög lítill og langt síðan keppni í flokki blandaðra liða hefur verið svona jöfn. Danska liðinu Ollerup sem var fyrir mótið spáð efsta sætinu endaði í fimmta sæti rétt á undan liði Selfyssinga en landar þeirra í Gadstrup urðu Norðurlandameistarar.

Liðið og þjálfarar þess vilja koma þökkum á framfæri fyrir allan þann stuðning og aðstoð sem þau hafa fengið í gegnum þetta verkefni.

Selfyssingar geisluðu af gleði á dansgólfinu.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Inga Heiða

Tags: