Um æfingagjöld

Um æfingagjöld

Vegna umræðu um æfingagjöld vill stjórn fimleikadeildar Umf. Selfoss koma eftirfarandi skýringum á framfæri. Það er misdýrt að æfa einstakar íþróttagreinar því að ólíku er saman að jafna.

Æfingagjöld eru reiknuð út frá tímafjölda iðkenda, fjölda barna í hóp og fjölda þjálfara á hóp. Iðkendur fimleika æfa fleiri tíma á viku eftir því sem þeir eldast. Ákveðnar reglur segja til um að hámarksfjöldi einstaklinga í hóp er 15 iðkendur og í það minnsta tveir þjálfarar og dansþjálfari sjá um hvern hóp auk þess sem aðstoðarmenn koma að þjálfun margra hópa. Iðkendur eru að æfa kröftug stökk þar sem tveir þjálfarar verða að vera til staðar til að geta tekið á móti iðkendum við lendingar og fleira. Æfingagjöldin eru einu föstu tekjurnar sem deildin hefur, t.d. er ekki heimilt að setja auglýsingar á búninga iðkenda og afla fjár með þeim hætti og deildin á ekki keppnisaðstöðu og getur því ekki sett auglýsingar þar.

Ársreikningar deildarinnar sýna að til margra ára hafa æfingagjöld sem iðkendur greiða ekki staðið undir launakostnaði deildarinnar og hafa stjórn, iðkendur og margir velunnarar lagt í ómælda sjálfboðavinnu á hverju ári til að endar nái saman auk þess sem nokkrir styrktaraðilar leggja deildinni árlega til fé.

Fimleikadeild Ungmennafélags Selfoss getur borið þó höfuðið hátt og vísað til verðkannana ASÍ þar sem fram kemur að deildin er ein þeirra sem innheimtir allra lægstu æfingagjöldin og munar oft mjög miklu á lægstu og hæstu gjöldum á landinu. Deildin er samt ein af öflugustu fimleikadeildum landsins eins og fjölmargir Íslandsmeistara-, deildarmeistara- og bikarmeistaratitlar bera vitni um. Einnig má benda á að deildin er ein þriggja deilda á landinu sem á iðkendur í landsliðum Íslands, alls átta einstaklinga.

Við hvetjum fólk til að kynna sér ársreikninga deildarinnar en þá má nálgast í Tíbrá og einnig er fróðlegt að skoða verðkönnun ASÍ.

Stjórn fimleikadeildar Umf. Selfoss