Vertu mEMm

Vertu mEMm

Nú styttist í Evrópumótið í hópfimleikum sem fram fer í Maribor í Slóveníu 12.-15. október. Á sunnudaginn var haldið keyrslumót fyrir landsliðin okkar þar sem áhorfendum gafst kostur á að sjá þau keyra sínar æfingar á lokametrum undirbúnings.

Ísland sendir að þessu sinni fjögur lið til keppni: kvennalandslið, blandað lið, stúlknalandslið og blandað lið unglinga. Átta iðkendur frá fimleikadeild Selfoss eru meðal keppenda Íslands. Eva Grímsdóttir er í A landsliði kvenna. Eysteinn Máni Oddsson, Konráð Oddgeir Jóhannsson, Margrét Lúðvígsdóttir og Rikharð Atli Oddsson eru í blönduðu liði. Í stúlknaliði eru Aníta Sól Tyrfingsdóttir og Júlíana Hjaltadóttir og í blönduðu liði unglinga er Hekla Björt Birkisdóttir.

Til að standa straum af kostnaði þátttakenda hefur Fimleikasambandið hrundið af stað fjáröflunarverkefninu Vertu mEMm. Verkefnið byggist á því að fyrirtæki skora hvert á annað að styðja við fimleikafólkið okkar, sem stendur straum af kostnaði við ferðina að miklu leyti sjálft.