Um félagið

Stofnun Ungmennafélags Selfoss og fyrstu árin
Úrdráttur úr bókinni “Ungmennafélag Selfoss 40 ára”, eftir Pál Lýðsson

Annan dag hvítasunnu, þann 1. júní 1936 voru 10 ungir Selfossbúar saman komnir á fundi í Tryggvaskála. Markmiðið var að halda stofnfund að ungmennafélagi í Sandvíkurhreppi. Á þessum fundi var enginn annar en framherji ungmennafélaganna Sigurður Greipsson, glímukappi og skólastjóri í Haukadal. Hélt hann erindi um starfsemi ungmennafélaganna og bauð þetta nýja félag velkomið í Héraðssambandið “Skarphéðin”. Björn Blöndal Guðmundsson las upp lög fyrir félagið sem fundarmenn samþykktu. Var því valið nafnið Ungmennafélagið “Tíbrá”. Þar sem fáir voru á þessum stofnfundi, var ákveðið að boða framhaldsstofnfund síðar, og voru kosnir til að sjá um hann Björn Blöndal Guðmundsson, Guðmundur Jóhannesson og Grímur E. Thorarensen. Björn Blöndal var aðalhvatamaður stofnunar félagsins. Hann hafði stundað og verið í félagslífi annars staðar áður.
Framhaldsstofnfundurinn var haldinn í barnaskólanum á Selfossi þann 10. júní, og sóttu þann fund 25 manns. Þar kynnti Björn Blöndal lög félagsins og fékk samþykkt fundarsköp  þess. Stjórnarkosningu var frestað til næsta fundar. Á þriðja félagsfundi var gegngið til stj´ronarkjörs og regluleg stjórn kjörin. Í stjórninni voru Vernharður Jónsson, formaður, Guðmundur Jóhannsson og Björn Blöndal. Í varastjórn voru Bjarni Sigurgeirsson, Grímur Thorarensen og Ágúst Helgason.
Á aðalfundi Ungmennafélagsins Tíbrár þann 26. janúar 1937 var samþykkt að breyta nafni félagsins í Ungmennafélag Selfoss. Í stjórn voru kosnir Björn Blöndal Guðmundsson, formaður, Guðmundur Jóhannsson, féhirðir og Sigurður Árnason, ritari.

Aðalstjórn Umf. Selfoss fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála í aðalstjórn. Fyrsta fund aðalstjórnar skal boða innan 15 daga frá aðalfundi félagsins. Aðalstjórn skal að jafnaði funda mánaðarlega og skulu aðalstjórnarfundir tímasettir fyrir allt árið á fyrsta fundi eftir aðalfund. Halda skal sérstaka gjörðabók um aðalstjórnarfundi.

Aðalstjórn félagsins ber að framfylgja samþykktum aðalfundar, koma fram fyrir hönd félagsins, efla félagið á allan hátt og gæta hagsmuna þess í hvívetna. Hún hefur umráðarétt yfir öllum eignum félagsins og ræður starfsemi þess í aðalatriðum í samráði við deildarstjórnir. Alla sjóði félagsins skal ávaxta í banka eða sparisjóði.  Kaup og sala fasteigna félagsins er bundin aðalfundarsamþykkt. Aðalstjórn tekur ákvörðun um skiptingu fjármagns sem félagið hefur aflað og staðið sameiginlega að. Heimilt er aðalstjórn og framkvæmdastjórn félagsins að skipa nefndir sem hún telur þörf á.

Framkvæmdastjórn félagsins skipa fimm menn, formaður, gjaldkeri, ritari og tveir meðstjórnendur sem kjósa skal á aðalfundi félagsins ár hvert og mega þeir ekki einnig vera formenn deilda félagsins. Framkvæmdastjórn fer með hlutverk aðalstjórnar milli aðalstjórnarfunda. Famkvæmdastjórn og formenn allra starfandi deilda, eða annar stjórnarmaður í forföllum fomanns, skipa aðalstjórn Umf. Selfoss.