Á annað hundrað keppenda á HSK mótunum í frjálsum 11 ára og eldri

Á annað hundrað keppenda á HSK mótunum í frjálsum 11 ára og eldri

Aldursflokkamót 11-14 ára, Unglingamót HSK og Héraðsmót HSK fullorðinna fóru öll fram í Kaplakrika sunnudaginn 10. janúar 2016. Þetta var í fyrsta sinn sem prófað var að halda öll mótin sama dag og við fyrstu sýn virðist vel hafa tekist til. Kaplakriki iðaði af lífi þegar um 170 einstaklingar reyndu sig í hinum ýmsu greinum. Nánari úrslit mótsins má sjá á heimasíðu Frjálsíþróttasambandsins.

Aldursflokkamót

Á Aldursflokkamótið voru skráðir 106 keppendur frá níu félögum. Margir voru þarna að keppa á sínu fyrsta móti og mjög margir að bæta sinn besta árangur þó svo að ekkert HSK met hafi litið dagsins ljós. Umf. Selfoss sigraði stigakeppni mótsins með 350,8 stigum, í öðru sæti varð Umf. Hrunamanna með 167,5 stig og Umf. Þór í þriðja sæti með 156 stig.

Unglingamót

Á Unglingamótið voru 43 keppendur skráðir frá sjö félögum en það er svipaður fjöldi og á síðasta ári. Fækkað var um einn flokk á unglingamótinu að þessu sinni svo keppendur á því voru 15-19 ára. Umf. Selfoss sigraði heildarstigakeppni mótsins með 143 stig og í öðru sæti varð Umf. Þór með 90,5 stig. Umf. Hrunamanna varð svo í þriðja sæti með 49,5 stig. Gaman hefði verið að sjá betri þátttöku í flokki 18-19 ára en vonandi verður ástandið betra í þeim aldursflokki á næsta móti.

Héraðsmót

Héraðsmót HSK fullorðinna var frekar fámennt þetta árið en það skýrist helst af því að aðeins 20 ára og eldri gátu keppt á mótinu vegna þess að það var haldið á sama tíma og hin mótin tvö. Þeir sem þó mættu á mótið sýndu mjög góða takta og fjögur HSK met voru slegin í öldungaflokkum. Ólafur Guðmundsson setti met í kúluvarpi 45-49 ára þegar hann kastaði 12,36 m. Hann setti svo Íslandsmet í 60 m grindahlaupi á tímanum 9,16 sek. Guðmann Óskar Magnússon setti met í sama flokki í 800 m hlaupi en hann hljóp á tímanum 2:26,48 mín. Þorsteinn Magnússon setti svo met í 800 m hlaupi í flokki 35-39 ára en hann hljóp á tímanum 2:18,30 mín. Heildarstigakeppni mótsins fór þannig að Umf. Selfoss sigraði með 87 stig, Íþróttafélagið Garpur var í öðru sæti með 44 stig og Íþróttafélagið Dímon var í þriðja sæti með 16 stig.