Aðalfundur Frjálsíþróttaráðs HSK

Aðalfundur Frjálsíþróttaráðs HSK

Aðalfundur Frjálsíþróttaráðs HSK fór fram miðvikudaginn 30. apríl og á fundinn voru mættir 15 fulltrúar frá níu félögum. Umf. Selfoss átti rétt á að senda sex fulltrúa á fundinn og voru fimm mættir.

Farið var yfir reikninga ráðsins sem stendur nú mun betur fjárhagslega en undanfarin ár. Í takt við það var ákveðið að lækka iðkendagjaldið sem lagt hefur verið á aðildarfélögin niður um 50% en gjaldið var á sínum tíma hækkað til þess að rétta af fjárhag ráðsins.

Á fundinum voru umræður um stofnun nýs meistaraflokks HSK mögulega innan Umf. Selfoss. Var samþykkt tillaga þess efnis að fara í vinnu að stofna flokkinn með hliðsjón af niðurstöðum nefndar sem var stofnuð um málið í vetur. Frjálsíþróttaráðið mun fara í þessa vinnu nú í sumar og vonandi verður nýr meistaraflokkur fyrir allt HSK svæðið stofnaður nú í haust.

Ýmislegt annað var tekið til umræðu á fundinum auk þess sem Jónas Egilsson, formaður FRÍ, sté í pontu og hrósaði HSK fyrir gott og öflugt frjálsíþróttastarf ásamt því að segja frá starfi sambandsins.

Á fundinum lét Steinunn E. Þorsteinsdóttir, Umf. Þór, af störfum sem gjaldkeri ráðsins og Jón Ágúst Reynisson frá íþróttafélaginu Garpi var kosinn nýr inn í stjórn.

Utanhústímabilinu verður ýtt úr vör með Vormóti HSK sem fer fram þann 17. maí næstkomandi á Selfossvelli.  Frjálsíþróttaráði HSK vonumst til að sjá sem flesta keppendur og áhorfendur á því móti, sem og öllum mótum á vegum ráðsins í sumar.

Byggt á HSK fréttum frá 7. maí.

Tags: