Bikarkeppni 15 ára og yngri | Eva María með Íslandsmet

Bikarkeppni 15 ára og yngri | Eva María með Íslandsmet

Sunnudaginn 11. mars sl. fór fram Bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands 15 ára og yngri í Kaplakrika. Keppt var í átta greinum í pilta og stúlknaflokki og hundrað keppendur voru mættir til leiks úr níu liðum. HSK sendi  tvö sterk lið til keppni sem stóðu sig frábærlega. A lið HSK sigraði stigakeppni félaga með yfirburðum fékk 113 stig á móti 80 stigum Ármenninga sem voru í öðru sæti. B lið HSK varð svo í fjórða sæti. Afrakstur dagsins í verðlaunum voru fimm gull, níu silfur og þrjú brons. 

Af öllum öðrum ólöstuðum var Eva María Baldursdóttir frá Selfossi HSK keppandi mótsins er hún sigraði örugglega í hástökki með stökk upp á 1,72 m og setti Íslandsmet í 15 ára flokki stúlkna. Þetta eru um leið mótsmet og HSK met í hennar flokki sem og í flokkum 16-17ára, 18-19 ára og 20-22 ára en hún átti gamla HSK metið, 1,70m í sínum flokki og með Ágústu Tryggvadóttir Selfossi í eldri flokkunum þremur. Goði Gnýr Guðjónsson Heklu setti svo HSK met í 1.500 m. hlaupi í flokki 14 ára pilta er hann kom annar í mark á 4:51,10 mín.

Auk Evu Maríu urðu eftirtaldir bikarmeistarar í sínum greinum: Sindri Freyr Seim Sigurðsson Heklu i 60 m. hlaupi. Sæþór Atlason Selfoss í 60 m. grindahlaupi. Birta Sigurborg Úlfarsdóttir Dímon í 400 m. hlaupi en þessi þrjú voru öll að bæta sig. Sveit HSK í 4×200 m. hlaupi stúlka ( Hrefna Sif Jónasardóttir Selfoss, Jóna Kolbrún Helgadóttir UMF.Bisk., Eva María Baldursdóttir Selfoss og Birta Sigurborg Úlfarsdóttir Dímon)

Mikil samheldni og stemning var allsráðandi hjá HSK hópnum sem skiptir miklu máli til að árangurinn verði sem bestur.  Það er ljóst að framtíðin er björt á HSK svæðinu er rétt verður á spilunum haldið.

Þjálfararnir, úr fréttabréfi HSK