Bikarkeppni FRÍ | Dýrleif Nanna með HSK met

Bikarkeppni FRÍ | Dýrleif Nanna með HSK met

HSK sendi tvö lið til keppni á Bikarkeppni FRÍ 15 ára og yngri sem haldin var í Kaplakrika í Hafnarfirði 1. mars sl. A-lið HSK náði ekki að verja titilinn að þessu sinni, en keppni efstu liða var spennandi. Í lokin skyldu níu stig á milli efstu liða. FH varð bikarmeistari með 116 stig en A lið HSK varð í 2. sæti með 107 stig. B lið HSK varð í 6. sæti með 60 stig.

Eitt HSK met var sett á mótinu. Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir Umf. Selfoss bætti metið í 1.500 m hlaupi 13 ára stúlkna þegar hún hljóp á 5:42,63 mín. Hún stórbætti fjögurra ára gamalt met Valgerðar Einarsdóttur, Umf. Hrunamanna, sem var 6:00,62 mín.

Keppendur HSK unnu fimm bikartitla á mótinu. Auður Helga Halldórsdóttir sigraði í langstökki, stökk 4,86 m, Hrefna Sif Jónasdóttir sigraði í 400 m hlaupi á 65,81 sek, Benjamín Guðnason sigraði í kúluvarpi þegar hann kastaði 11,39 m, Haukur Arnarson sigraði í 60 m grindahlaupi á 9,11 sek og Sebastian Þór Bjarnason sigraði í langstökki, stökk 6,07 m sem er nýtt mótsmet, en gamla metið var 6,05 m.

Úr fréttabréfi HSK

Dýrleif Nanna sprettir úr spori.
Ljósmynd: HSK/Guðmundur Karl