Dagur Fannar og Bríet með HSK-met á RIG

Dagur Fannar og Bríet með HSK-met á RIG

Alþjóðlegu Reykjavíkurleikarnir, oft nefndir RIG leikarnir, fóru fram í Laugardalshöll um liðna helgi. Sunnlendingar áttu flotta fulltrúa sem allir stóðu fyrir sínu.

Guðrún Heiða Bjarnadóttir, Selfossi, stökk 5,41 m og varð önnur í langstökki kvenna.

Fjóla Signý Hannesdóttir, Selfossi , keppti í 60 m grindahlaupi og hljóp á sínum ársbesta tíma 9,38 sek og varð fimmta, en hún var búin að hlaupa á 9,44 sek í janúar.

Thelma Björk Einarsdóttir, Selfossi, keppti í kúluvarpi en gekk ekki alveg nógu vel þar sem hún gerði öll sín köst ógild. Thelma Björk hefur verið að kasta um og yfir 12 metra undanfarið.

Kristinn Þór Kristinsson og Harpa Svansdóttir bæði í Selfoss gátu ekki keppt vegna smávægilegra meiðsla en þeim hafði verið boðin þátttaka í 800 m hlaupi karla og langstökki kvenna.

Í 600 m hlaupi pilta 15 ára og yngri tók Dagur Fannar Einarsson, Selfossi, silfur en lengst af var hann í forystu en missti einn fram úr sér á lokametrunum en engu að síður frábært hlaup hjá honum. Tíminn: 1:34,40 mín sem er bæting og nýtt HSK met í hans flokki sem og í flokkum 16-17 ára og 18-19 ára.

Hjá stúlkunum 15 ára og yngri hreppti Bríet Bragadóttir, Selfossi, þriðja sætið á bætingu og nýju HSK meti í fimm flokkum: 15 ára, 16-17 ára, 18-19 ára, 20-22 ára og fullorðinsflokki. Tími hennar var 1:42,60 mín. Lára Björk Pétursdóttir, Laugdælum, varð sjöunda í mark á tímanum 1:50,67 mín.

Fjölbrautaskóli Suðurlands sendi boðhlaupssveit til keppni í 4×200 m boðhlaupi framhaldsskólanna sem var nýjung í ár. Þetta voru í sprettaröð þeir: Ýmir Atlason, Selfossi, Jamison Ólafur Johnson, Selfossi, Róbert Kortchai Angeluson, Þór og Stefán Narfi Bjarnason, Þjótanda. Þeir stóðu sig með prýði og náðu þriðja sætinu á tímanum 1:40,38 mín. Þeir félgar eru allir meðlimir frjálsiþróttaakademíunnar við Fsu.

Þetta var frábært mót, keyrt vel áfram og hörku keppni fyrir alla. Næsta mót er Stórmót ÍR sem fer fram í 21. sinn um næstu helgi 11.-12. febrúar. Þangað ætla Sunnlendingar að fjölmenna

Heildarúrslit mótsins má sjá á úrslitavef FRÍ www.thor.fri.is.

óg

Á mynd með frétt eru Guðrún Heiða sem varð 2. í langstökki og Thelma Björk sem keppti í kúluvarpi.
Á mynd fyrir neðan er boðhlaupssveit FSu f.v. Stefán Narfi, Róbert Kortchai, Jamison Ólafur og Ýmir Atlason.
Ljósmyndir Umf. Selfoss/Ólafur Guðmundsson

frjalsar-rig_2017_fsusveit

Tags:
,