Eva María Íslandsmeistari í hástökki

Eva María Íslandsmeistari í hástökki

MÍ aðalhluti fór fram í Hafnarfirði dagana 25.-26.júní sl.  12 keppendur frá Frjálsíþróttadeild Selfoss voru skráðir til leiks. Hin stórefnilega Eva María Baldursdóttir varð Íslandsmeistari í hástökki er hún vippaði sér léttilega yfir 1.71m í hástökki og sigraði mjög örugglega við erfiðar veðuraðstæður.  Álfrún Diljá Kristínardóttir náði þeim glæsilega árangri að vinna til silfurverðlauna í sleggjukasti er hún kastaði sleggjunni 44,94m  og setti í leiðinni fjórfalt HSK met. Hún bætti metið í flokkum 16-17 ára, 18-19 ára, 20-22 ára og í  kvennaflokki.   Hinn þrautreyndi kastari Örn Davíðsson vann til silfurverðalauna í spjótkasti er hann kastaði spjótinu 64,92m og Róbert Khorcai vann einnig til silfurverðlauna með því að stökkva 12,39m í þrístökki.  Hinn efnilegi Daníel Breki Elvarsson (16 ára) kastaði spjótinu 52,00m og endaði í 4.sæti  sem er frábær árangur hjá honum. Hin efnilega Eydís Arna Birgisdóttir náði 6.sæti í 200m hlaupi er hún hljóp á tímanum 26,79 sek  sem er undir HSK metinu í flokki 15 ára en meðvindur var of mikill  til að fá metið skráð. Að lokum náðu þær Dagmar Sif Morthens og Erlín Katla Hansdóttir inn í úrslit í langstökki.  Dagmar Sif stökk 4.42m og varð í 11. sæti og Erlín Katla stökk 4.22m og varð í 12.sæti.