Eva María keppir á NM fullorðinna í Helsinki

Eva María keppir á NM fullorðinna í Helsinki

Eva María Baldursdóttir Umf. Selfoss keppir næsta sunnudag í hástökki á Norðurlandameistaramótinu innanhúss sem fer fram í Helsinki næsta sunnudag. Danir og Íslendingar senda sameiginlegt lið til keppni og eru tveir valdir í hverja grein óháð þjóðerni. Eva María hefur verið mjög stöðug á innanhússtímabilinu og bætti nýlega HSK metin í unglingaflokkum innanhúss með þvi að vippa sér yfir 1,73 m. Frábært hjá þessari efnilegu 16 ára stúlku að ná i landslið fullorðinna.

Eva María er búin að ná þeim frábæra árangri að ná lágmarki á tvö stórmót í sumar. Með því að vippa sér yfir 1.76m sl. sumar náði hún lágmarki á Evrópumeistaramót 18 ára og yngri sem haldið verður á Ítalíu 16.-19. júlí í sumar. Hún er auk þess búin að ná lágmarki á Bauhaus Junioren Gala sem er mjög sterkt alþjóðlegt unglingamót sem haldið er í Mannheim í Þýskalandi 20.-21. júní í sumar.

Frjálsíþróttadeild Selfoss er virkilega stolt af árangri Evu Maríu og óskar henni góðs gengis.