Eva María keppir á NM um helgina

Eva María keppir á NM um helgina

Eva María Baldursdóttir sigraði hástökkskeppni RIG glæsilega þegar hún vippaði sér yfir 1.76m um síðustu helgi.  Árangurinn varð til þess að hún var valin í sameiginlegt keppnislið Íslands og Danmerkur sem keppir um næstu helgi á Norðurlandameistaramótinu í frjálsum íþróttum.   Sjö íslendingar voru valdir til þátttöku en mótið fer fram í Svíþjóð sunnudaginn 13.febrúar.  Eva María hefur hæst stokkið 1.78m innanhúss og er það 4 cm frá Íslandsmetinu í hennar aldursflokki (18-19 ára) sem Vala Flosadóttir setti árið 1996.  Hæsta stökk á Norðurlöndum á þessu innanhússtímabili á finnski stökkvarinn Ella Junnla en hún hefur stokkið yfir 1.88m á þessu ári.   Gaman verður að sjá Evu Maríu etja kappi við bestu hástökkvara Norðurlandanna en hún hefur æft vel í vetur í nýju Selfosshöllinni.