Fjóla Signý æfir með landsliðinu

Fjóla Signý æfir með landsliðinu

Selfyssingurinn Fjóla Signý Hannesdóttir æfði með íslenska landsliðinu í frjálsum íþróttum í Laugardalshöll um síðustu helgi.

Greint var frá því á vef DFS.is að þrír einstaklingar úr HSK eru í A-landsliðshópi fyrir 2015, en það eru þau Kristinn Þór Kristinsson (millivegalengda- og langhlaupi), Agnes Erlingsdóttir og Fjóla Signý (báðar í sprett- og grindahlaupi).

Kristinn og Fjóla mættu á æfinguna en Agnes býr í Osló í Noregi þar sem hún æfir að kappi. Selfyssingurinn Kári Jónsson var einn af þjálfurunum, en hann hefur m.a. þjálfað hjá HSK í mörg ár, fatlaða íþróttamenn og einnig hjá Ármanni.

Landsliðshópurinn byrjaði daginn á því að taka æfingu saman, en síðan borðaði hópurinn saman og endaði á fundi. Á fundinum var farið yfir helstu afrek á árinu 2014. Þar stendur hæst að Ísland komst upp um deild bæði í Evrópukeppni félagsliða og í fjölþrautum. Markmið fyrir næsta ár er að halda sér í 2. deild. Einnig eru stór markmið fyrir Smáþjóðaleikana en þeir verða haldnir á Íslandi næsta vor. Ísland stefnir að því ná tíu gullverðlaunum á leikunum, en Ísland náði eftirminnilega sex gullverðlaunum á síðustu Smáþjóðaleikum sem haldnir voru í Lúxemborg 2013.

Kristinn Þór Kristinsson, Fjóla Signý Hannesdóttir og Kári Jónsson.
Mynd: DFS.is