Fjóla Signý Íslandsmeistari í fimmtarþraut kvenna

Fjóla Signý Íslandsmeistari í fimmtarþraut kvenna

Meistaramót Íslands í fjölþrautum innanhúss fór fram helgina 14.-15. janúar sl. í Frjálsíþróttahöllinni. Fjóla Signý Hannesdóttir Selfossi varð Íslandsmeistari í fimmtarþraut er hún náði 3792 stigum og bætti hún sig í öllum greinum þrautarinn-ar. Fjóla Signý átti best áður 3474 stig og bætti því sinn besta árangur um 318 stig. Fjóla Signý er í frábæru formi um þessar stundir og náði stórkostlegum árangri á fyrsta móti ársins.

Í fyrstu grein mótsins bætti hún eigið HSK-met í 60 m grindahlaupi með tímanum 9,02 sek. Því næst bætti hún sig um 6 cm í hástökki með því að stökkva 1,71 m en það er 5. besti árangur íslenskrar konu frá upphafi í hástökki innahúss. Kúlunni varpaði hún 9,91 m sem er bæting um 25 cm. Því næst bætti hún sinn besta árangur í langstökki um 18 cm með því að stökkva 5,35 m. Að lokum hljóp Fjóla 800 m hlaup á tímanum 2:18,74 mín, sem er bæting um tæpar 6 sekúndur.

Fjóla Signý var einungis 17 stigum frá HSK-meti Ágústu Tryggvadóttur og er árangur hennar jafnframt 4. besti árangur íslenskrar konur frá upphafi. Frábær byrjun á árinu 2012 hjá þessari stórkostlegu frjálsíþróttakonu.

Þess má geta að Fjóla Signý flutti til Svíþjóðar 16. janúar sl. þar sem hún mun æfa hjá einum besta grindahlaupsþjálfara Evrópu, Benke Blomquist, sem m.a. þjáfaði hinar sænsku Kallur systur.

Mynd: Fjóla ásamt Maríu Rún Gunnlaugsdóttur og Kristínu Karlsdóttur sem urðu í 2. og 3. sæti.

-sag/ög