Frjálsíþróttaakademía við Fjölbrautaskóla Suðurlands

Frjálsíþróttaakademía við Fjölbrautaskóla Suðurlands

Lengi hefur verið stefnt að því að setja á laggirnar frjálsíþróttaakademíu við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Loksins er það að verða að veruleika og hefur FSu samþykkt að hún geti, í samstarfi við Frjálsíþróttadeild Umf. Selfoss, hafist í byrjun næsta árs, 2015.

Þetta er mikill áfangi í frjálsíþróttastarfi á Suðurlandi og eykur verulega möguleika þeirra sem stunda nám við FSu að geta æft frjálsar íþróttir undir góðri handleiðslu á skólatíma.

Til að starf akademíunnar geti hafist þarf ákveðinn fjöldi nemenda að skrá sig í hana og hvetjum við sem flesta að skoða þetta vel og skrá sig ef áhugi er fyrir hendi til að starf hennar geti hafist. Góða lýsingu á náminu má finna á heimasíðu FSu en þar segir m.a:

Á vorönn verður nemendum gert kleift að velja frjálsíþróttaakademíu við skólann. Um er að ræða afreksíþróttaáfanga sem unninn er í samstarfi við Ungmennafélag Selfoss. Í akademíunni verður lögð er áhersla á einstaklinginn, getu hans í frjálsíþróttum og framfarir. Með miklum og vel skipulögðum æfingum í frjálsum íþróttum sem og í þjálfun þrekþátta og tækni er stefnt að því að byggja upp einstaklinga sem hafa alla burði til að ná langt í sinni íþrótt. Nemendur kynnast öllum greinum frjálsra íþrótta en velja á milli þess að leggja megináherslu á stökk, köst, spretthlaup eða langhlaup.  Með mælingum og mati í upphafi áfangans verða persónuleg markmið sett fyrir hvern og einn. Nemendur gangast undir strangar æfingar, mætinga- og agareglur með það að markmiði að þeir læri af reynslunni hvernig má ná árangri. Lagt er uppúr því að nemendur læri að vera hluti af liðsheild þar sem einstaklingurinn þarf að gera upp við sig og forgangsraða hlutum í sínu lífi út frá þörfum heildarinnar.

Æft verður þrisvar sinnum í viku á skólatíma. Ýmist í íþróttasal, kennslustofu eða þreksalnum í Iðu. Einnig er gert ráð fyrir 4-5 æfingum á viku með meistaraflokki Selfoss.

Gert er ráð fyrir æfingagjöldum í frjálsíþróttaakademíunni. Innifalið í gjaldinu er þjálfun í akademíu sem og í meistaraflokki frjálsíþróttadeildar, aðgangur að sjúkraþjálfara, tryggingar og æfingaföt.  Gerðar verða ríkar kröfur um stundvísi á æfingar, vinnusemi, aga og heilbrigðan lífsstíl.

Í boði verða sex áfangar sem samsvarar 3 ára námi í akademíunni samhliða öðru námi.

Frjálsíþróttaakademían eykur við fjölbreytni í námsvali nemenda sem vilja efla sig og styrkja sem afreksmenn í íþróttum, en auk hennar er boðið upp á akademíur við skólann í handbolta, knattspyrnu, körfubolta, fimleikum og hestaíþróttum.

Tags: