Góðar árangur á Gaflaranum

Góðar árangur á Gaflaranum

Sunnlendingar náðu góðum árangri á frjálsíþróttamótinu Inni-Gaflaranum sem fram fór í Kaplakrika í Hafnarfirði sl. laugardag. Ellefu HSK met féllu á mótinu.

Solveig Þóra Þorsteinsdóttir úr Þór sigraði bæði í langstökki og 400 m hlaupi 11-12 ára stúlkna og bætti HSK metin í báðum greinum. Í langstökki stökk hún 4,84 m og hún hljóp 400 m hlaupið á 68,35 sek. Samtals setti hún fjögur met, en þetta eru met bæði í 12 og 13 ára flokki. Bríet Bragadóttir, Selfossi, bætti HSK metið í 400 hlaupi í 12 ára flokknum, hljóp í fyrsta riðli á 70,19 sek. Hún átti metið í nokkrar mínútur, en Solveig hljóp í þriðja riðli.

Hákon Birkir Grétarsson setti HSK met í 60 metra hlaupi 12 ára, en hann hljóp í undanrásum á 8,55 sek. Hákon átti metið í tæpa tvo klukkutíma, en Kolbeinn Loftsson sem hljóp með Hákoni í undanrásum á 8,56, sem var einnig undir gildandi HSK meti (8,58), hljóp á 8,50 sek í úrslitum og setti HSK met. Hákon Birkir vann síðan kúluvarpið og Kolbeinn langstökkið.

Þá sigruðu boðhlaupssveitir HSK/Selfoss í 4×200 m boðhlaupi 11-12 ára pilta og 11-12 ára stúlkna og setu HSK met. Piltasveitin hljóp á 2:01,67 mín en hana skipuðu þeir Viktor Karl Halldórsson, Umf. Þór, Hákon Birkir Grétarsson, Umf. Selfoss, Kolbeinn Loftsson, Umf. Selfoss og Dagur Fannar Einarsson Umf. Vöku. Þetta er einnig HSK met í 13 ára flokki pilta.

Stúlknasveitin hljóp á 2:06,13 mín en hana skipuðu þær Bríet Bragadóttir, Umf. Selfoss, Hildur Helga Einarsdóttir, Umf. Selfoss, Valgerður Einarsdóttir, Umf. Gnúpverja og Solveig Þóra Þorsteinsdóttir, Umf. Þór.

Pétur Már Sigurðsson sigraði í 400 m hlaupi á nýju HSK meti í 14 ára flokki, hljóp á 65,60 sek.

Fleiri Sunnlendingar gerðu það gott og sigruðu í sínum greinum á Inni-Gaflaranum. Óskar Snorri Óskarsson sigraði í langstökki og Benjamín Guðnason í kúluvarpi í flokki 10 ára pilta. Í flokki 11-12 ára sigraði Hildur Helga Einarsdóttir í kúluvarpi. Ragnheiður Guðjónsdóttir sigraði í kúluvarpi 13 ára stúlkna og Stefán Narfi Bjarnason sigraði í kúluvarpi 14 ára pilta.

Í 15 ára flokki sigraði Styrmir Dan Steinunnarson í hástökki pilta og Harpa Svansdóttir sigraði í þrístökki og kúluvarpi stúlkna. Þá sigraði sveit HSK/Selfoss í 4×200 m boðhlaupi 15 ára pilta.

Á efstu myndinni eru 10 krakkarnir sem kepptu á mótinu.
Hér fyrir neðan eru:
Kolbeinn, Hákon og Viktor
Sólveig Þóra og Bríet
Hildur Helga
Harpa
Myndir: Umf. Selfoss/Þuríður Ingvarsdóttir

Kolbeinn, Hákon og Viktor Sólveig Þóra og Bríet Hildur Helga Harpa Svans vefur