Hnífjafnt í bikarkeppni 15 ára og yngri

Hnífjafnt í bikarkeppni 15 ára og yngri

Um helgina var Bikarkeppni FRÍ haldin að Laugum í Þingeyjasýslu. HSK/Selfoss sendi 13 manna lið til þátttöku og mættu krakkarnir gríðarlega einbeittir til leiks og tilbúin að leggja allt í sölurnar fyrir liðið sitt.

Árangurinn hjá okkar krökkum var stórkostlegur. Í heildarstigakeppninni urðum við jöfn ÍR í efsta sæti með 122,5 stig og UFA/UMSE varð í þriðja sæti með 122 stig. Eins og sjá má var keppnin mikil og jöfn og munaði um hvert stig sem hægt var að ná í, krakkarnir lögðu sig 100% fram og urðu í öðru sæti í stúlknaflokki á eftir ÍR og einnig í piltaflokki á eftir UFA/UMSE.

Liðið okkar er frekar ungt en aðeins einn keppandi er á sextánda ári, tveir 14 ára og restin 13 ára og eiga þau því flest tvö ár eftir á þessu móti og verður mjög spennandi að fylgjast með þeim.

Í einstökum greinum bar það hæst að Hákon Birkir Grétarsson (13 ára) setti HSK og Íslandsmet í flokki 13 ára í 100 m grind á 15,46 sek, en hann varð annar í grindinni. Guðjón Baldur Ómarsson (15 ára) sigraði í spjótkasti með 41,26 m. Helga Margrét Óskarsdóttir (14 ára) sigraði einnig í spjótkasti með 36,75 m og Kolbeinn Loftsson (13) ára sigraði í hástökki með 1,60 m.

Tags:
,