Metfjöldi meta hjá Óla Guðmunds

Metfjöldi meta hjá Óla Guðmunds

Keppni á héraðsmóti fullorðinna í frjálsíþróttum hófst sl. mánudag, en mótið er nú haldið í nýju frjálsíþróttahöllinni í Kaplakrika.

Það bar helst til tíðinda á mótinu að Ólafur Guðmundsson úr Umf. Selfoss setti ellefu HSK met í flokki öldunga 45–49 ára. Ekki er vitað til að svo mörg met hafi verið sett af sama einstaklingnum á sama deginum.

Óli bætti HSK metið í hástökki í flokki 45-49 ára um 20 sentimetra þegar hann stökk 1,70 metra. Hann setti fjögur HSK met í hástökkinu, með því að stökkva yfir 1,55, 1,60, 1,65 og 1,70 metra. Þá stórbætti hann HSK metið í sama aldursflokki í 60 metra hlaupi, en hann hljóp á 7,82 sek. Hann bætti 28 ára gamalt HSK met Ólafs Unnnsteinssonar í kúluvarpi um 5 sentimetra. Óli kastaði 12,06 metra og varð HSK meistari. Loks bætti hann HSK metið í langstökki  í sínum flokki um 1,12 metra. Svo skemmtilega vildi til að hann setti fimm HSK met í stökkseríunni, bætti sig  í hverju stökki fram að síðasta stökkinu.

Fleiri HSK met öldunga voru sett á mótinu. Guðmann Óskar Magnússon úr Dímon setti HSK met í 800 metra hlaupi í flokki 45-49 ára, hljóp á 2:27,64 mín. og Guðmundur Nikulásson úr Dímon setti  einnig HSK met í 800, en hann hljóp á 2:42,58 mín. sem er met í 50-54 ára flokki.

Selfyssingar eru með örugga forystu í stigakeppni félaga eftir fyrri dag með samtals 125 stig. Þór er með 38 stig, Dímon 25 stig, Suðri 4 stig og Þjótandi er með 2 stig.

Keppni verður framhaldið í Kaplakrika næsta mánudag. Úrslit fyrri dags og tímaseðil seinni hlutans má sjá á www.fri.is.

Frétt af vef HSK.

Tags:
,