Metþátttaka í Frjálsíþróttaskóla UMFÍ á Selfossi

Metþátttaka í Frjálsíþróttaskóla UMFÍ á Selfossi

Það var líf og fjör á frjálsíþróttavellinum á Selfossi dagana 8. til 12. júlí  þar sem í viðbót við hefðbundna starfsemi dvöldu um 40 börn sem komu víðsvegar að af landinu til að taka þátt í Frjálsíþróttaskóla UMFÍ haldin var á Selfossi. Þetta er í fimmta skipti sem skólinn er haldinn á HSK svæðinu og var þátttakan í ár um það bil tvöfalt meiri en verið hefur fyrri ár.

Skólinn er fyrir krakka á aldrinum 11 til 18 ára og er haldinn á fimm stöðum um landið ár hvert. Í skólanum fóru krakkarnir í allar helstu greinar frjálsíþrótta og að auki eru ýmsir skipulagðir atburðir svo sem ratleikir, spurningakeppni, frjálsíþróttamót o.fl. Íþróttasvæðið á Selfossi er upplagt fyrir skóla af þessu tagi, þar sem stutt er á milli frábærs íþróttavallar og góðrar sundlaugar.

Skólinn endaði með litlu frjálsíþróttamóti og pylsuveislu þar sem viðurkenningaskjöl fyrir skólann voru veitt. Skólinn heppnaðist mjög vel með góðri skipulagningu og góðri aðstoð fyrirtækja. Skólinn vill þakka öllum þeim fjölda fyrirtækja sem lögðu okkur lið, en þau voru: MS, Kjúklingabúið Vor, Hafnarnes Ver, Bónus, Nettó, Almarsbakarí, Guðnabakarí, Sölufélag garðyrkjumanna, Kjörís, Myllan, Nathan&Olsen, Krás, HP kökugerð og Valgerður á Húsatóftum. Alls störfuðu 10 þjálfarar og aðstoðarmenn við skólann í sumar.