MÍ í fjölþrautum | Dagur Fannar og Sebastian Þór Íslandsmeistarar

MÍ í fjölþrautum | Dagur Fannar og Sebastian Þór Íslandsmeistarar

Fjórir keppendur af sambandssvæði HSK tóku þátt í MÍ í fjölþrautum í frjálsum sem haldið í Laugardalshöllinni 16.-17. febrúar sl. og þrír þeirra komust á pall.

Dagur Fannar Einarsson úr Umf. Selfoss sigraði örugglega í sjöþraut pilta 16-17 ára á nýju HSK meti, hlaut samtals 4.520 stig. Gamla metið var 4.275 stig sem Styrmir Dan Steinunnarson átti. Dagur Fannar sló annað met í þrautinni, en hann bætti eigið HSK met í 1.000 m hlaupi um tæpar tvær sekúndur þegar hann hljóp á 2:48,65 mín.

Sebastian Þór Bjarnason úr Umf. Selfoss tryggði sér einnig Íslandsmeistaratitil, en hann sigraði í fimmtarþraut pilta 15 ára. Hann fékk 2.644 stig í þrautinni og stórbætti þar með héraðsmetið í 15 ára flokki. Gamla metið átti Hákon Birkir Grétarsson, 2.245 stig sett árið 2017. Sebastian bætti einnig HSK metið í 60 m grindahlaupi í flokki 15 ára pilta um 0,04 sekúndur en hann hljóp á 8,71 sek. en Styrmir Dan Steinunnarson úr Þór átti metið.

Birta Sigurborg Úlfarsdóttir úr Dímon varð í 2. sæti í fimmtarþraut í flokki 16-17 ára stúlkna á mótinu. Hún fékk 2.743 stig.