Pétur Már með þrenn gullverðlaun á Stórmóti ÍR í flokki 13 ára

Pétur Már með þrenn gullverðlaun á Stórmóti ÍR í flokki 13 ára

Frjálsíþróttadeild Selfoss sendi öfluga krakka til leiks á Stórmót ÍR sem haldið var í Frjálsíþróttahöllinni helgina 26.-27. janúar sl. Í flokkum 10 ára og yngri er keppt í þrautabraut og sendi Selfoss tvö lið til leiks og stóðu krakkarnir sig frábærlega í skemmtilegum þrautum þar sem allir eru sigurvegarar. Í flokkum 11-14 ára kepptu fullt af efnilegum krökkum sem náðu mjög góðum árangri og náðu margir að bæta sig. Á stórmótinu kepptu um 750 keppendur víðsvegar af landinu.

11 ára flokkur
Hildur Helga Einarsdóttir bætti sig í kúluvarpi um 43 cm þegar hún kastaði kúlunni slétta 8 metra og sigraði glæsiega. Hún bætti sinn besta árangur í langstökki um 11 cm þegar hún stökk 3,35 m.
Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir bætti sig um 8 cm í hástökki þegar hún stökk 1,08 m og hafnaði í 6.-8. sæti. Hún bætti sinn besta árangur í kúluvarpi um 10 cm þegar hún kastaði kúlunni 4,90 cm. Í langstökki bætti hún sig um 24 cm þegar hún sveif 3,29 m.
Unnur María Ingvarsdóttir bætti sinn besta árangur í kúluvarpi um 73 cm þegar hún kastaði kúlunni 4,93 m og hún bætti sig um 22 cm í langstökki þegar hún sveif 3,12 m.
Hákon Birkir Grétarson náði 4. sæti í 60 m hlaupi á tímanum 9,69 sek. Í hástökki bætti hann sinn  besta árangur um 2 cm þegar hann stökk 1,22 m og varð í 5. sæti. Kúlunni kastaði hann 7,41 m sem er bæting um 41 cm og hafnaði í 7. sæti. Hann sveif 3,42 m í langstökki sem er bæting um 8 cm. Að lokum varð hann í 10. sæti í 600 m hlaupi á tímanum 2;14,92 sek.
Símon Thor Einarsson bætti sig um tæpa 2 metra í kúluvarpi þegar hann þeytti kúlunni 4,97 m. Hann keppti í fyrsta sinn í 60 m hlaupi og langstökki og stóð sig vel.

12 ára flokkur
Helga Margrét Óskarsdóttir jafnaði sinn besta árangur í hástökki þegar hún stökk yfir 1,22 m og hafnaði í 4.-5. sæti. Hún varð einnig í 5. sæti í 60m hlaupi á tímanum 9,41 sek og í 600 m hlaupi á tímanum 2:07,92 mín.
Sophia Ornella Grímsdóttir bætti sinn besta árangur í 60 m hlaupi um hálfa sekúndu  þegar hún kom í mark á tímanum 11,37s.
Díana Dögg Svavarsdóttir bætti einnig sinn besta tíma í 60 m hlaupi um rúma sekúndu, hljóp á tímanum 11,98 sek. Hún bætti sig einnig  um 1 cm í langstökki þegar hún stökk 2,88 m.

13 ára flokkur
Elísa Rún Siggeirsdóttir bætti sinn besta árangur í 60 m hlaupi um 19 brot þegar hún kom í mark á tímanum 9,92 sek. Hún bætti sig einnig um 1 sek í 600 m hlaupi  er hún hljóp á tímanum 2:25,45 mín.
Arndís María Finnsdóttir bætti sinn besta  árangur í langstökki um 10 cm þegar hún stökk 3,24 m. Hún bætti sinn besta árangur í 600 m hlaupi um 0,32 sek þegar hún kom í mark á tímanum 2:15,32 mín. 
Pétur Már Sigurðsson sigraði glæsilega í þremur greinum á mótinu. Í hástökki sigraði hann  með því að stökkva 1,47 m. Í langstökki bætti hann sinn besta árangur um 33 cm og stökk 4,69 m og hafði sigur. Að lokum kastaði hann kúlunni til sigurs með 9,74 m kasti. Hann bætti sinn besta árangur í 60 m hlaupi um 0,3 sek og lenti í 5. sæti og í grindahlaupi bætti hann sig um tæpa sekúndu er hann kom í mark á tímanum 11,30 sek sem gaf 4.-5. sæti.
Valgarður Uni Arnarsson bætti sinn besta árangur í 60 m hlaupi um hálfa sekúndu er hann spretti í mark á tímanum 9,59 sek. Hann varð sjöundi í kúluvarpi er hann bætti sig um 75 cm og kastaði 7,21 m. Að lokum bætti hann sig um 17 cm í langstökki þegar hann sveif 3,51 m.

14 ára flokkur
Harpa Svansdóttir lenti í 2. sæti í kúluvarpi með 9,38 m sem er bæting um 1,3 m hjá henni og  í langstökki stökk hún til bronsverðlauna með 4,44 m stökki. Harpa varð í 7. sæti í 60 m hlaupi á tímanum 8,92 sek og í 9. sæti í hástökki með 1,32 m og grindahlaupi á tímanum 10,82 sek.

-sag/ög