Selfoss sigraði með yfirburðum á aldursflokkamóti HSK

Selfoss sigraði með yfirburðum á aldursflokkamóti HSK

Aldursflokkamót HSK var haldið í Þorlákshöfn um seinustu helgi en mótið er ætlað 11-14 ára börnum. Níu félög sendu keppendur til leiks og keppendur voru 84 talsins.

Stigakeppni félaga fór þannig að Umf. Selfoss sigraði mótið með yfirburðum og náði í 963 stig. Næstir á eftir þeim kom Umf. Hrunamanna með 395 stig og í þriðja sæti var Umf. Þór með 381 stig.

Krakkarnir stóðu sig mjög vel á mótinu og 114 persónuleg met litu dagsins ljós. Auk þess voru tvö HSK slegin, en Bríet Anna Heiðarsdóttir Umf. Þór setti HSK met í kúluvarpi í flokki stúlkna 11 ára þegar hún kastaði kúlunni 8,42 m. Þá setti Selfyssingurinn Hákon Birkir Grétarsson HSK met í 80 metra grindahlaupi í 14 ára flokki, hann hljóp á  12,3 sek.

Þetta mót gaf svo sannarlega góð fyrirheit fyrir MÍ 11-14 ára sem fer fram helgina 25.-26. júní en keppnislið HSK/Selfoss stefnir að sjálfsögðu á að verja Íslandsmeistaratitilinn frá síðasta ári.

Um 70 krakkar á héraðsleikum HSK

Á sama tíma komu tæplega 70 krakkar á aldrinum fjögurra til tíu ára saman á Héraðsleikum HSK í frjálsíþróttum. Mótið var haldið í blíðskaparveðri í Þorlákshöfn og krakkarnir sýndu svo sannarlega hvað í þeim býr, enda litu fjölmargar bætingar dagsins ljós. Að keppni lokinni fengu allir þátttakendur verðlaunapening fyrir þátttökuna.