Styrmir Dan og Halla María með 8 Íslandsmeistaratitla og 1 Íslandsmet á MÍ 11-14 ára

Styrmir Dan og Halla María með 8 Íslandsmeistaratitla og 1 Íslandsmet á MÍ 11-14 ára

Helgina sem leið, laugardaginn 30. júní og sunnudaginn 1. júlí s.l., fór fram á Laugardalsvelli í Reykjavík Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum í aldursflokkum 11-14 ára. HSK/Selfoss liðinu gekk mjög vel á mótinu, en liðið hreppti þriðja sætið í heildarstigakeppninni með 415,5 stig. ÍR varð í öðru sæti með 521,2 stig. FH varð Íslandsmeistari með599 stig. HSK/Selfoss liðið varð Íslandsmeistari í flokkum 13 og 14 ára pilta og í öðru sæti í stúlknaflokkum 11 og 13 ára og í flokki 12 ára pilta.

Keppendur HSK/Selfoss náðu glæsilegum árangri í mörgum greinum og unnu til 13 gullverðlauna, 8 silfurverðlauna og 7 bronsverðlauna.
Styrmir Dan Steinunnarson, Þór, stóð sig frábærlega á mótinu. Hann varð fjórfaldur Íslandsmeistari í flokki 13 ára pilta með því að sigra hástökk á nýju og glæsilegu Íslandsmeti, 1,67 m og bæta gamla metið um einn sentimetra. Hann sigraði 80 m grindahlaup á 13,27 sek, sem er HSK-met, kúluvarpið er hann varpaði 12,95 m og svo spjótkastið, þar sem hann á Íslandsmetið sjálfur, en kastaði nú 45,55 m. Árangur Styrmis í hástökkinu er að sjálfsögðu einnig HSK-met. Styrmir vann svo silfurverðlaun í 100 m hlaupi á 13,07 sek, í lang- stökki með 5,13 m löngu stökki og í 4×100 m boðhlaupi með 14 ára piltunum. Sveit 13 ára pilta varð í þriðja sæti,en hana skipuðu: Baldur Viggósson Dýrfjörð, Þór, Tryggvi Kolbeinsson, Laugdælum, og Hólmar og Hannes Höskuldssynir, Baldri.
Halla María Magnúsdóttir, frá Selfossi, stóð sig einnig mjög vel, en hún vann fern gullverðlaun. Hún hljóp allra stúlkna hraðast í 100 m hlaupi á nýju HSK-meti, 13,16 sek. Gamla metið var frá 1978 og var 13,0 á handtíma. Hún vann einnig 80 m grindahlaup á 13,70 sek. Þá kastaði hún spjótinu 31,04 m og kúlunni 11,98 m, en hún á Íslandsmetið í báðum þessum greinum.
Harpa Svansdóttir, Selfossi, varð í þriðja sæti í kúlunni er hún varpaði 10,07 m og tók silfur í langstökki, stökk 4,77 m. Þær stöllur ásamt Ingibjörgu Andreu Jóhannsdóttur, Laugdælum, og Sunnu Skeggjadóttur, Baldri, unnu svo silfur í 4×100 m boðhlaupinu.
Í flokki 14 ára pilta unnust þrjú gull. Sveinbjörn Jóhannesson, Laugdælum vann gull í kúlu með kast upp á 13,09 m og bætingu. Teitur Örn Einarsson, Selfossi, vann gull í spjótkasti, kastaði 46,54 m og Fannar Yngvi Rafnarsson, Þór, í langstökki með stökk upp á 5,41 m. Fannar varð annar í 100 m hlaupi á 12,47 sek og þriðji í hástökki er hann vippaði sér yfir 1,61 m og bætti sig um einn cm. Teitur Örn varð svo annar í kúluvarp-inu á eftir Sveinbirni með 11,72 m. Þeir félagar ásamt Styrmi Dan urðu svo í þriðja sæti í 4×100 m boðhlaupi.
Í 12 ára flokki pilta sigraði Stefán Narfi Bjarnason, Baldri, er hann varpaði kúlunni 8,36 m. Þá varð Valgarður Uni Arnarsson, Selfoss, þriðji í hástökki með 1,36 m. Þeir félagar ásamt Matthíasi Bjarnasyni og Guðmundi Heiðari Ágústssyni Skeiðamönnum tóku svo brons í 4×100 m boðhlaupi.
Helga Margrét Óskarsdóttir, Selfossi, stóð sig vel í 11 ára flokki stúlkna. Hún sigraði í spjókasti með 19,27 m kasti. Marta María Bozoviz, Þór, varð í öðru sæti með 18,15 m. Helga vann svo til tveggja brons-verðlauna, í 60 m hlaupi á 9,35 sek og í 800 m hlaupi á 3:01,59 mín.

Frábær árangur hjá krökkunum. Fararstjórar og þjálfarar á mótinu voru Þuríður Ingvarsdóttir, Rúnar Hjálmarsson og Guðmunda Ólafsdóttir ásamt Steinunni E. Þorsteinsdóttur og Ingvari Garðarssyni.

-óg