Teitur Örn þrefaldur Íslandsmeistari og Sigþór með HSK met

Teitur Örn þrefaldur Íslandsmeistari og Sigþór með HSK met

Unglingameistaramót Íslands í aldursflokkum 15 – 22 ára fór fram á Kópvogsvelli um liðna helgi. HSK/Selfoss sendi tólf keppendur til leiks sem stóðu sig frábærlega og höfnuðu í þriðja sæti í heildarstigakeppni félaga. Rúsínan í pylsuendanum var Íslandsmeistaratitill í stigakeppni félaga í flokki 15 ára pilta þar sem Teitur Örn Einarsson var öflugur í stigasöfnun. Frjálsíþróttadeild Selfoss átti 7 keppendur í liði HSK/Selfoss.

Teitur Örn Einarsson (15 ára flokkur) sigraði í 1500 m hlaupi á 5:13,18 mín, í kringlukasti (1kg) með 41,60 m löngu kasti og einnig í kúluvarpi (4 kg) þegar hann varpaði kúlunni 14,64 m. Teitur Örn og Sigþór urðu svo í þriðja sæti í 4×100 m boðhlaupi í flokki 20–22 ára ásamt tveimur félögum sínum í HSK/Selfoss. Sigþór Helgason (16-17 ára flokkur) sigraði í spjótkasti (700gr) með tæplega þriggja metra bætingu, kastaði 59,95 m og bætti sjö ára gamalt HSK met Arnar Davíðssonar, sem þá keppti fyrir Selfoss, um 20 cm. Sigþór varð einnig annar í kúluvarpi varpaði 13,25 (5kg) ásamt bronsi í boðhlaupinu. Thelma Björk Einarsdóttir (16-17 ára flokkur) tók þrenn silfurverðlaun, í sleggjukasti (3kg), kastaði hún 38,71 m, í kringlu (1kg) með 30,17 m og í kúluvarp með kast upp á 11,54 m. Sólveig Helga Guðjónsdóttir (16-17 ára flokkur) vann til bronsverðlauna í 400 m hlaupi á 64,42 sek. og 200 m hlaupi á 27,66 sek. Andrea Vigdís Victorsdóttir og Sólveig Helga voru í boðhlaupssveit HSK/Selfoss í 4×100 m boðhlaupi sem vann til silfurverðlauna. Dagur Fannar Magnússon (20-22 ára) vann silfurverðlaun í sleggjukastinu (7,26 kg) er hann kastaði sleggjunni 43,63 m.