Thelma Björk með tvö Selfossmet í kvennaflokki

Thelma Björk með tvö Selfossmet í kvennaflokki

Thelma Björk Einarsdóttir, 19 ára kastari frá Selfossi,  hefur verið iðin við æfingar í sumar og er það að skila sér í miklum bætingum.  Hún leggur aðallega stund á kringlukast og kúluvarp en kastar sleggjunni aðeins með.  Í kringlukasti náði hún þeim flotta árangri á Meistaramóti Íslands á dögunum að jafna Selfossmet Elínar Gunnarsdóttur sem var frá árinu 1981, jöfnunarkastið mældist 37,29m.   Í sleggjukasti náði hún þeim frábæra árangri að kasta sleggjunni 40,09m og stórbæta Selfossmet Evu Sonju Schiöth um tæpa 3 metra.  Þetta kast er einnig HSK met í flokkum 18-19 ára stúlkna og 20-22 ára stúlkna.    HSK metin í flokki kvenna í kringlu- og sleggjukasti á Guðbjörg Viðarsdóttir og eru þau bæði frá árinu 1997.  Kringlukastmetið er 43,98m og sleggjukastmetið er 41,38m.  Spennandi verður að sjá hvort Thelma Björk geri atlögu að þessum metum á Meistaramóti Unglinga um næstu helgi á Sauðárkróki.