Jafntefli í háspennuleik

Jafntefli í háspennuleik

Selfoss og HK halda áfram að berjast um 8. sætið í Olís deild kvenna en það sæti gefur rétt til að spila í úrslitakeppninni nú í vor. Þessi lið mættust um helgina og var um alvöru háspennu leik að ræða enda mikið í húfi fyrir bæði lið. Selfoss byrjaði betur og komst t.d fjórum mörkum yfir í stöðunni 6-10 en gáfu því miður heldur mikið eftir undir lok fyrri hálfleiks og HK náði að jafna 10-10 áður en flautað var til leikhlés. Fyrri hluta seinni hálfleiks leiddi Selfoss, með einu til tveimur mörkum og síðasta korterið var jafnt á flestum tölum. Selfoss komst yfir 19-21 en náði aldrei að hrista HK almennilega af sér. Lokatölur urðu jafntefli, 25-25. Selfoss var með boltann síðustu sóknina en tókst ekki að koma boltanum í netið. Með sigri hefði Selfoss verið nær því að tryggja sig inn í úrslitakeppnina en liðið er núna í áttunda sæti deildarinnar með 16 stig, einu stigi á undan HK. Selfoss á tvo leiki eftir í deildinni, á móti ÍR laugardaginn 28. mars og á móti Val þriðjudaginn 31. mars.

Markahæst í liði Selfoss var Carmen Palamariu með 8 mörk. Línumennirnir, Elena Birgisdóttir og Perla Ruth skoruðu fjögur mörk hvor, Hrafnhildur Hanna skoraði þrjú mörk, Kristrún Steinþórsdóttir og Þuríður Guðjónsdóttir tvö mörk hvor og Hildur Öder og Harpa Sólveig skoruðu eitt mark hvor.

Á mynd: Carmen Palamariu skoraði 8 mörk á móti HK /Jóhannes Ásgeir Eiríksson

Blaðamaður Fimmeinn.is var á staðnum og má sjá nánari umfjöllun um leikinn hér. Einnig má sjá viðtal við Sebastian þjálfara Selfoss og Hrafnhildi Hönnu stórskyttu Selfoss.