3. flokkur í 8-liða úrslit

3. flokkur í 8-liða úrslit

Í gær mætti Selfoss liði Þórs í umspili 3. flokks um að komast í 8-liða úrslit. Selfyssingar voru sterkari í leiknum og sigruðu 35-28 eftir að hafa verið með undirtökin nær allan leikinn.

Selfoss byrjaði betur en náði ekki að slíta sig frá Þórsurum framan af leik og jöfnuðu gestirnir í 5-5. Í stöðunni 8-8 nær Selfoss hins vegar að bæta aðeins við muninn og ná þriggja marka forystu en staðan í hálfleik var svo 15-12. Í seinni hálfleik komst Selfoss strax í 18-13. Þó að Þórsarar hafi minnkað muninn aðeins eftir það var sigurinn aldrei í hættu. Leiknum lauk svo með sjö marka sigri Selfoss.

Leikurinn var heilt yfir ágætur þó að liðið hefði getað gert betur í bæði vörn og sókn. Sóknarlega fóru fjölmörg góð færi forgörðum, sérstaklega fyrri hluta leiks, og varnarlega var liðið að klikka of mikið á einföldum atriðum. Lengi vel sáust hins vegar flottir kaflar hjá liðinu.

Með sigrinum kemst Selfoss í 8-liða úrslit þar sem liðið mætir Gróttu á útivelli.