4. flokkur karla í bikarúrslit!

4. flokkur karla í bikarúrslit!

Strákarnir í 4. flokki urðu í gær annað liðið frá Selfossi sem kemst í bikarúrslit þegar þeir sigruðu Gróttu í undanúrslitum 24-16. Þetta er þriðja árið í röð sem Selfoss á tvö lið í Laugardalshöllinni í úrslitaleikjum en að auki er Meistaraflokkur kominn þangað í undanúrslit og á 4. fl. kvenna enn eftir að spila um að komast í Höllina.

Selfyssingar léku frábæra vörn  allan leikinn en sóknin komst aldrei í gang í fyrri hálfleik. Þar var ekkert flot á boltanum og náði liðið aldrei þeim takti sem einkennir það vanalega. Til að mynda var staðan 4-4 eftir 19 mínútur í leiknum. Selfoss var alltaf á undan í hálfleiknum og 8-7 yfir í hálfleik.

Í seinni hálfleik hins vegar sýndu strákarnir sitt rétta andlit bæði í vörn og sókn. Eftir rúmar 8 mínútur í seinni hálfleik hafði liðið gert jafn mörg mörk og í öllum fyrri hálfleiknum og Selfoss komið 16-12 yfir. Strákarnir létu ekki við staðar numið þar og skoruðu næstu 5 mörk í viðbót og komnir 21-12 yfir. Grótta minnkaði aðeins muninn undir lokin og lokatölur 24-16.

Eins og áður kom fram var það varnarleikurinn sem kom Selfossi  í bikarúrslitin að þessu sinni. Mikilvægi þess þáttar sýndi sig í leiknum en liðið komst upp með það að spila afleitan sóknarleik en leiða samt allan fyrri hálfleik þar sem vörnin var svo þétt. Um leið og sóknin kom inn var aldrei nein spurning hvernig færi. Selfyssingar verða þó að taka úr þessum leik að þeir verða að leika þeirra bolta sóknarlega ætli þeir sér að stjórna leikjunum algjörlega.

Bikarúrslitaleikurinn fer fram sunnudaginn 10. mars klukkan 11:00 í Laugardalshöllinni. Gaman væri að sjá sem flesta Selfyssinga í Höllinni þá helgi.