4. flokkur sótti fjögur stig í Kópavoginn

4. flokkur sótti fjögur stig í Kópavoginn

Í 4. flokki karla léku bæði lið gegn HK á útivelli og náðu Selfyssingar sér í tvo sigra úr ferðinni.

A-liðið var kraftlaust framan af og menn ekki nægilega vel tilbúnir í leikinn. Það leiddi til þess að jafnt var í hálfleik 11-11. Í síðari hálfleik lék Selfoss mun betur en í þeim fyrri og unnu þann hálfleik með 5 mörkum og leikinn 21-26.

Það jákvæða við leikinn var það að liðið keyrði hraðaupphlaup mjög vel og takturinn þar að koma aftur inn. Í sókninni gerðu sjö leikmenn mörk í síðari hálfleik og var það fyrst og fremst munurinn á fyrri og seinni hálfleik – fleiri leikmenn tóku ábyrgð og var samspilið betra í síðari hálfleiknum. 

Leikur B-liðanna var furðulegur. Selfoss lenti 14-9 undir og lék illa framan af. Eftir það bættist leikur liðsins töluvert og einbeiting manna jókst. 15-15 var í hálfleik. Selfoss var yfir nær allan seinni hálfleikinn með allt að fjórum mörkum. Skráðar lokatölur voru 28-29 sigur Selfoss.

Það jákvæða við þennan leik var að sumir leikmenn fengu mun stærra hlutverk en áður og nýttu það vel. Voru nokkrir leikmenn að skila meiri og betri tölfræði en þeir hafa áður gert og því leikurinn mikilvægur fyrir liðið.

*** Næstu leikir Selfoss í 4. flokki eru á laugardag gegn Gróttu. A-lið kl. 12:30 og B-lið kl. 13:45. Hvetjum við alla til að mæta enda um hörkuleiki að ræða.