4. flokkur tapaði lokaleiknum

4. flokkur tapaði lokaleiknum

4. flokkur eldri lék á sunnudag lokaleik deildarkeppninnar er þeir mættu Haukum í Strandgötu. Selfyssingar náðu sér aldrei í gang í leiknum og voru Haukamenn sterkari allan leikinn. Fór svo að lokum að þeir sigruðu 28-21 og unnu með sigrinum deildarmeistaratitilinn.

Haukar komust í 4-1 og leiddu 10-6. Þeir komust svo sex mörkum yfir 15-9 áður en Selfoss skoraði seinasta mark hálfleiksins og minnkaði í 15-10. Í hálfleik bættu Haukar við muninn og komnir strax í 17-10. Selfyssingar náðu ekki að komast nær Haukum en 6 mörk og lokatölur sem áður segir 28-21.

Þannig fór að þessu sinni. Haukar voru tilbúnari í leikinn og því vel að deildarmeistaratitlinum komnir. Þeir komu í leikinn ákveðnari og ætluðu sér að sækja sigurinn. Varnarleikur Selfyssinga var aldrei góður í leiknum. Helsta vandamálið þar var að liðið náði nær aldrei að klára varnirnar eftir að hafa staðið þær vel í nokkurn tíma. Í sókninni lék liðið ágætlega í framan af en eftir því sem leið á leikinn var komin óreiða í sóknarleikinn og liðið sjaldan að spila hlutina eins og þeir eru vanir, svo sem að spila boltanum lengur og í gegn.

Úrslitakeppnin tekur þá við og getur allt gerst þar. Leika Selfyssingar við Stjörnuna á heimavelli í 8-liða úrslitum.