Ragnarsmótið

Um Ragnarsmótið

 

Ragnarsmótið í handknattleik er árlegt minningarmót sem haldið er til minningar um Ragnar Hjálmtýsson, einn af efnilegri handboltamönnum Selfoss. Hann lést ungur að árum í bílslysi árið 1988, aðeins 18 ára gamall.

 

Mótið fer jafnan fram í lok ágúst eða byrjun september. Fram til ársins 2015 var mótið aðeins karlamót, en síðan þá hefur mótinu verið skipt upp í sérstakt karla- og kvennamót. Fjögur lið taka þátt í mótinu og leikið er í einum riðli, leikin er ein umferð og eftir hana er sigurvegarinn krýndur. Áður fyrr var leikið í tveimur riðlum þar sem leikið var um fyrsta, þriðja og fimmta sætið eftir riðlakeppni.

 

Fyrir sigur í mótinu er veittur sérstakur farandbikar. Einnig eru veitt einstaklingsverðlaun fyrir besta leikmanninn, besta sóknarmanninn, besta varnarmanninn, besta markmanninn og markahæsta leikmanninn. Sérstök nefnd sér um valið. Mótið er eitt elsta æfingamót landsins í handknattleik og hefur löngum þótt eitt það skemmtilegasta. Yfirleitt mæta bestu lið landsins á mótinu og markar það upphaf keppnistímabilsins í handboltanum.

 

Hér til hliðar er hægt að sjá úrslit fyrri Ragnarsmóta. Athugið að síðan er í vinnslu.

 

Mótið er haldið til minningar um Ragnar Hjálmtýsson
sem lést í umferðarslysi, aðeins 18 ára gamall.

 

 

Ragnarsmótið í handknattleik 1989 – 2009

20 ára minningarmót. 

 

Handknattleiksdeild Ungmennafélags Selfoss hélt árlegt Minningarmót um Ragnar Hjálmtýsson í 20. sinn 9.-12. september 2009.

 

Ragnar Hjálmtýsson fæddist á Selfossi 4. maí 1970. Hann lést í bílslysi aðeins 18 ára gamall þann 16. september 1988. Fyrir mér var Ragnar fyrst og fremst litli bróðir minn, 5 árum yngri en ég, en náinn mér og við gátum brallað margt saman. Hann var skemmtilegur, stríðinn, en gat tekið strýðni, hress, opinn og hlýr. Fór að sparka bolta um leið og hann gat staðið. Mættur á fótboltaæfingar þegar hann var 4 ára og stundaði knattspyrnu og handbolta jöfnum höndum í barnaskóla. Á unglingsárum var það síðan handboltinn sem hafði yfirhöndina og hann lagði metnað sinn í að verða góður markmaður. Hann spilaði handbolta með Selfoss alla unglingaflokka og einnig í unglingalandsliði HSÍ 18 ára og yngri 1987-1988.

 

Ragnar stundaði nám í vélvirkjun. Aðfaranótt 16. september var örlagrík, mörg ungmenni á leið á réttarball í Árnesi. Skammt þar frá lenda tveir bílar saman á blindhæð. Fjórir ungir menn látnir. Þrír þeirra frá Selfossi, Benedikt Ásgeirsson, Guðmundur Árnason og Ragnar, 17 og 18 ára gamlir. Hlynur Ingi Búason 16 ára úr Reykjavík sem var í hinum bílnum lést einnig, ökumaður þess bíls slasaðist alvarlega en lifði sem betur fer af.

 

Handknattleiksdeild UMFS hefur frá því árið eftir slysið staðið fyrir árlegu móti til minningar um Ragnar. Mótið er nú með elstu mótum í handknattleik sem haldið hefur verið með óbreyttu sniði. VÍS hefur verið dyggur stuðningsaðili mótsins frá upphafi og hafa þeir verið duglegir að fræða unglinga um ábyrgðina sem fylgir því að aka bíl.

 

Sviplegt fráfall fjörugra ungra og virkra manna markaði djúp spor í ekki stærrra samfélagi en okkar. Frá því Ragnar lést hafa tveir vinir hans héðan frá Selfossi látið lífið í umferðaslysum, Magnús Arnar Garðarsson í vélhjólaslysi árið 1990 og Guðjón Ægir Sigurjónsson sem varð fyrir bíl í janúar.

 

Við lærum umferðareglur frá unga aldri og brýnt er fyrir okkur að haga okkur af skynsemi í umferðinni, það virðist því miður ekki nægja til að draga úr slysum. Kannski ættum við að leyfa okkur að láta hjartað ráða för í umferðinni? Myndum við ekki haga okkur betur, sýna meira umburðarlyndi og fara varlegar ef við vissum að í bílunum í kringum okkur væru foreldrar okkar, systkyni, börnin okkar og vinir?

 

Málið er að í umferðinni eru foreldrar, systkyni, börn og vinir, kannski ekki alltaf okkar en fjölmargra annarra – högum okkur eftir því.

 

Að lokum vil ég hvetja alla til að koma í Íþróttahús Vallaskóla á Selfossi og fylgjast með spennandi leikjum í handbolta. Áfram Selfoss!

 

Brynja Hjálmtýsdóttir