Ragnarsmótið árið 2015 var í fyrsta skipti í sinni 25 ára sögu haldið bæði í karla- og kvennaflokki. Mótið var haldið í íþróttahúsi Vallaskóla 19.-21. ágúst í karlaflokki og 2.-5. september í kvennaflokki. Handknattleiksdeild Selfoss hélt mótið í samstarfi við VÍS og fjölskyldu Ragnars Hjálmtýssonar, sem lést ungur í bílslysi. Mótið er æfingamót fyrir leikmenn og dómara áður en handboltavertíðin hefst.
Strákarnir riðu á vaðið og ásamt heimamönnum tóku þátt í mótinu Olís-deildarlið Fram, Vals og Hauka. Í fyrsta skipti var mótið leikið í einum riðli með fjórum liðum. Sigurliðið fékk farandbikar til varðveislu í eitt ár. Bikarinn var í vörslu Vals sem sigraði mótið árið 2014 en týndu þeir bikarnum og því varð að kaupa nýjan! Í kvennaflokki var leikið í hefðbundnum stíl, í tveimur riðlum og svo úrslitaleikir á laugardegi. Ásamt heimakonum tóku þátt Olís-deildarlið FH, Fram, Gróttu, HK og ÍBV. Að loknu móti voru veitt verðlaun fyrir fyrsta, annað og þriðja sæti ásamt því að sigurliðið fékk farandbikar til varðveislu í eitt ár. Einnig voru veitt einstaklingsverðlaun, en sérstök nefnd sá um valið.