Allt í járnum gegn Gróttu

Allt í járnum gegn Gróttu

Selfoss lék sinn fyrsta heimaleik á tímabilinu gegn Gróttu í kvöld 4. október. Það mátti búast við hörkuleik, enda viðureignir liðanna í fyrra mjög jafnar og svo varð raunin.

Leikurinn byrjaði af miklum krafti og náði hvorugt liðið að ná afgerandi forystu fyrstu 10 mínútur leiksins. Þannig var staðan 6-5 eftir 10 mínútur. Á næstu mínútum slakaði vörn Selfoss fullmikið á og náði Grótta 3 marka forystu 6-9 eftir 15 mínútur. Selfoss gekk illa að skora í fyrri hálfleik og oft mikið um klaufaleg mistök. Þannig var staðan 7-10 og 10 mínútur til hálfleiks. Liðið náði loks að ná sóknarleiknum upp og skoraði 6 mörk síðustu 10 mínútur leiksins, Grótta skoraði þó 4 mörk. Staðan var því 13-14 í hálfleik.

 

 

Mynd: Sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var Grótta sem byrjaði síðari hálfleikinn af meiri krafti og Selfoss ennþá að elta þá. Staðan 16-18 og 40 mínútur búnar. Þá loks hrökk Selfoss liðið í gang bæði sóknarlega og sérstaklega varnarlega. Góður 5 mínúta kafli skilaði liðinu forystunni 20-19 og einungis korter eftir. Liðið virtist ætla að nýta meðbyrin vel og náði 3 marka forystu 23-20 þegar 10 mínútur voru til leiksloka. Selfoss virtist ætla að halda á þessari forystu út leikinn enda þegar 5 mínútur voru til leiksloka var staðan 24-22. Þá kom bakslag í sóknarleik Selfoss og illa gekk að skora, Grótta komst á lagið og voru yfir 24-25 þegar 50 sekúndur voru til leiksloka. Selfoss fór því marki undir í síðustu sókn leiksins, Andri Hrafn fékk mjög þröngt færi í hægra horninu og skaut á markið. Það var hinsvegar brotið á honum og dæmt víti þegar 10 sekúndur voru eftir. Einar Sverrisson steig á punktinn og var svellkaldur og skoraði jöfnunar markið 25-25. Leiktíminn rann svo út þegar Grótta reyndi að taka miðju. 25-25 jafntefli því staðreynd í hörkuleik.

Selfoss var lengi í gang í leiknum, vörnin virkaði illa í fyrri hálfleik. Hinsvegar í þeim síðari kom miklu meiri grimmd í vörnina og hélt hún betur. Sóknarleikurinn var mjög kaflaskiptur, komu stundum góðir kaflar og aðra stundina lélegir. Markvarslan var í samræmi við vörnina í fyrri hálfleik, en í þeim síðari náði Sverrir sig mjög vel á strik. Matthías Örn átti einn sinn besta leik í langan tíma, þar sem hann spilaði vel bæði sóknarlega og varnarlega. Annars var liðið mjög jafnt í dag og allstaðar kom framlag. Það er þó sárt að tapa leik niður í jafntefli þegar 3 marka forysta er kominn og lítið eftir. Þetta fer þó hinsvegar í reynslubankan hjá leikmönnum.

Matthías Örn Halldórsson var markahæstur Selfyssinga með átta mörk, Einar Sverrisson skoraði fimm, Andri Hrafn Hallsson fjögur, Hörður Másson þrjú, Sverrir Pálsson tvö og þeir Örn Þrastarson, Magnús Már Magnússon og Ómar Ingi Magnússon skoruðu allir eitt mark.

Markvarslan:

Sebastian 3/16(16%)

Sverrir 10/22(45,5%)

 

-sþ