Auðveldur sigur á móti Hömrunum

Auðveldur sigur á móti Hömrunum

Selfoss vann auðveldan sigur á liði Hamranna frá Akureyri í kvöld.  Gestirnir skoruðu fyrsta mark leiksins en Selfoss næstu sex og sáu Hamrarnir ekki til sólar eftir það.  Selfoss var betra liðið á öllum sviðum í kvöld og fengu allir leikmenn að spreyta sig og slógu leikmenn ekki af út leiktímann þrátt fyrir mikinn mun.  Ákveðin uppgjöf var í liði Hamranna sem sýndi litla mótspyrnu. Staðan í hálfleik var 19-9. Í byrjun seinni hálfleiks fékk einn leikmaður Hamranna beint rautt spjald eftir að hafa brotið á Ómari Inga og þurfti að fara á undan liðsfélögum sínum í sturtu. Munurinn á liðunum hélst út leikinn og urðu lokatölur 37-21 fyrir Selfoss. 

Gaman er að sjá hve margir ungir leikmenn hafa fengið tækifæri með liðinu í vetur en í kvöld spilaði  Sævar Ingi Eiðsson sinn fyrsta meistaraflokksleik en hann er á eldra ári í þriðja flokki. 

Atli Kristinsson var markahæstur í kvöld með 10 mörk.  Einar Sverrisson var með 5 mörk, Sævar Ingi, Jóhann Erlings, Andri Hrafn og Andri Már skoruðu fjögur mörk hver, Egidijus var með þrjú mörk skoruð, Sverrir Pálsson með tvö og Ómar Ingi skoraði eitt mark.  Sebastian varði 12 skot en hann stóð í markinu í fyrri hálfleiknum og Sverrir í þeim síðari en hann var með 10 skot varin.

Selfoss er áfram í þriðja sæti deildarinnar eftir leiki kvöldsins.  Næsti leikur er á móti KR eftir viku á útivelli.    

Á mynd: Atli Kristinsson, markahæstur í liði Selfoss í kvöld

Tags: