Bikardraumurinn úti

Bikardraumurinn úti

Draumur Selfoss um að komast í Final four í Coca Cola bikarnum er úti, eftir tap í átta liða úrslitum á móti Haukum 26-22. Stelpurnar í Selfoss byrjuðu leikinn gríðarlega vel, voru greinilega vel stemmdar og höfðu frumkvæðið í fyrri hálfleiknum. Mest náðu þær þriggja marka forystu, 7-10 en Haukar áttu góðan sprett í lok hálfleiksins og leiddu 14-12 í hléi. Seinni hálfleikurinn var eins og sá fyrri, jafn og spennandi þó Haukar hafi oft verið skrefinu á undan. Til dæmis var jafnt á tölum í stöðunni 16-16 og svo aftur í stöðunni 22-22 þegar um fjórar mínútur voru til leiksloka. Síðustu mínúturnar gekk ekkert upp hjá Selfoss, Haukar skoruðu fjögur síðustu mörkin og sigraði 26-22 eins og áður sagði.

Það er því ljóst að Selfoss nær ekki inn í Final four en voru grátlega nálægt því. Á þessum tæpum þremur árum frá því meistaraflokkur kvenna var endurvakinn, hafa orðið miklar framfarir og góður stígandi í liðinu. Framtíðin er svo sannarlega björt.

Stór hópur fylgdi stelpunum í Hafnarfjörðinn en Tyrfingsson bauð upp á sætaferðir á leikinn og einnig kom fjöldi manns á eigin vegum þrátt fyrir leiðinda færð á heiðinni. Liðið var vel stutt af áhorfendum og góð stemming á pöllunum í Schenkerhöllinni.

Nánari umfjöllun og gang leiksins má finna á mbl.is en þar er einnig viðtal við Hrafnhildi Hönnu sem má finna hér.

Fréttaritari Fimmeinn.is tók Sebastin tali eftir leik. Sjá hér.